Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur

0
681
Björn Gunnlaugsson og Eiríkur Jónsson voru heiðraðir

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur um helgina. Á luaugardeginum voru allskonar bryggjuleikir ásamt hinum árlega kappróðri. Nokkur lið voru skráð til keppni en sigurvegarar í kvennaflokki var lið skrifstofu Skinneyjar-Þinganess ehf. og í karlaflokki voru það „Sveitavargarnir“. Einnig var keppt í koddaslag og flekahlaupi og var mikil ásókn í flekahlaupið og hlutu þátttakendur eina gosdós að launum. Skinney – Þinganes var með matarkynningu og sá Gísli Vilhjálmsson um hana og bauð upp á fiskiborgara, saltfiskspítu, reyktar þorsk pylsur og sjávarréttasúpu. Vakti matarkynningin mikla lukku. Slysavarnardeildin Framtíðin seldi Candyfloss og bauð upp á andlitsmálningu fyrir börnin og Kvennakór Hornafjarðar var með vöfflusölu. Sjálfsögðu voru hoppukastalar á staðnum fyrir krakkana.
Ekki var haldið hefðbundið sjómannaball eins og tíðkast vegna sóttvarnareglna en öll fyrirtæki í sjávarútvegi buðu sínu starfsfólki út að borða á veitingahúsum bæjarins í staðinn.

Heiðranir

Á sjálfum Sjómannadeginum var haldin sjómannadagsmessa og hélt Eyrún Axelsdóttir magnaða hugvekju að sögn viðstaddra. Hátíðardagskráin var flutt af Hóteltúninu inn í Báruna vegna rigningar. Gunnar Örn Marteinsson flutti hátíðarræðu og voru einnig veitt verðlaun fyrir kappróður og sjómenn heiðraðir, og voru það Björn Gunnlaugsson og Eiríkur Jónsson sem urðu þess heiðurs aðnjótandi.
Björn er fæddur 19. desember árið 1952 í Berufirði. Björn fór fyrst til sjós 16 ára að aldri en gerði þó sjómennskuna ekki að atvinnu sinni og telst vart sjómaður að eigin sögn. Hann hefur hinsvegar unnið að viðhaldi og viðgerðum á bátum í mörg ár, fyrst hjá Vélsmiðju Hornafjarðar til ársins 1981 og svo hjá útgerðini Eskey. Þar starfaði hann í 21 ár eða þar til útgerðin var seld til Skinneyjar – Þinganess og hefur hann unnið þar síðan.
Eiríkur er fæddur á Fossi á síðu 12. ágúst 1946. Eiríkur fór ungur til sjós, meðal annars á Sigurfara frá Höfn. Eiríkur flutti ásamt fjölskyldu sinni til Hornafjarðar árið 1974 þar sem hann tók við stöðu verkstjóra í Vélsmiðju Hornafjarðar þar starfaði hann þar til ársins 1989 þegar hann hóf eigin útgerð ásamt bróður sínum og síðar stofnuðu þeir Vélsmiðjuna Foss og vann hann þar þangaði til hún var seld. Síðan þá hefur hann sinnt viðgerðum á Trölla ásamt ýmsum öðrum verkefnum og er hann ekki þekktur fyrir að sitja aðgerðalaus.
Björn og Eiríkur þakka öllum þeim sem þeir hafa starfað með í gegnum tíðina og óskuðu sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Neistinn

Sævar Rafn hlaut Neistann

Tryggingarmiðstöðin og Félag vélstjóra og málmtæknimanna veittu einnig Neistann, sem er viðurkenning fyrir fyrirmyndar yfirvélstjórastörf. Tilgangur viðurkenningarinnar er að vekja athygli á hversu þýðingarmikið og krefjandi starf yfirvélstjóra er og veita þeim sem skara framúr viðurkenningu fyrir fyrirmyndarstörf. Var þetta í 28. skiptið sem Neistinn er veittur. Sævar Rafn Guðmundsson yfirvélstjóri á Ásgrími Halldórssyni SF-250 hlaut viðurkenninguna í ár. Sævar er fæddur 20. mars 1972 í Reykjavík. Sævar lauk barnaskóla á Hornafirði 1988 og 4. stigi Vélskóla Íslands árið 1998, lauk sveinsprófi í vélvirkjun árið 2002. Á árunum 1993-1998 starfaði Sævar sem vélstjóri og háseti á ýmsu skipum, frá 2000-2006 var hann 1. og yfirvélstjóri á Ásgrími Halldórssyni SF-250 og frá 2008 hefur Sævar verið yfirvélstjóri á skipi með sama nafni, Ásgrími Halldórssyni SF-250.
Sjómannadagsráð þakkar öllum þeim sem komu að hátíðarhöldunum og lögðu hönd á plóg til að gera þessa helgi mögulega. Ber þar að nefna Björgunarfélag Hornafjarðar og sérstaklega unglingadeildina Brand. Gaman er að sjá hvað starfið er öflugt og hvað margir taka þátt í starfinu og gaman var að sjá hve margir komu og létu sjá sig niður á bryggju og í Bárunni. Óskum Fiskimjölsverksmiðju SÞ, áhöfn Skinneyjar SF 20 og Netagerð SÞ farsældar í störfum sínum fyrir sjómannadagsráð 2022.