Séra Fjalar Sigurjónsson

0
378

Séra Fjalarr Sigurjónsson lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli hinn 27. mars síðastliðinn, á hundraðasta aldursári. Hann fæddist á Kirkjubæ í Hróarstungu 20. júlí 1923 og þar ólst hann upp. Foreldrar hans voru Anna Þ. Sveinsdóttir og séra Sigurjón Jónsson. Fjalarr var einn sex barna þeirra hjóna, fimm komust upp, af þeim er nú aðeins Máni organisti á lífi. Eiginkona sr. Fjalars var Beta Einarsdóttir hjúkrunarkona (1923-2018). Börn þeirra eru Anna og Máni. Barnabörnin urðu sex, af þeim eru fimm á lífi. Barnabarnabörnin eru níu talsins. Sr. Fjalarr lauk guðfræðinámi við Háskóla Íslands árið 1952 og vígðist til prestsþjónustu í Hríseyjarprestakalli sama ár. Þangað fluttu þau hjón með dótturina unga og þar fæddist þeim sonurinn. Þau bjuggu í Hrísey í ellefu ár en tóku sig þá upp og settust að á Kálfafellsstað í Suðursveit. Sr. Fjalarr þjónaði Kálfafellsstaðar – Brunnhóls – og Hofskirkjusöfnuðum frá 1963 – 1989 og einnig Bjarnanesprestakalli í aukaþjónustu frá 1971-1974. Hann var stundakennari í Mýraskóla 1963-1967, í hreppsnefnd Borgarhafnarhrepps í 20 ár og 22 ár í Sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu. Svo var hann meðal stofnenda Karlakórsins Jökuls og söng með honum um árabil. Eflaust minnast margir hans og Betu fyrir þátttöku þeirra í ýmsu félagsstarfi í sýslunni. Þau hjón fluttu til Reykjavíkur haustið 1989 og bjuggu á Langholtsvegi 39. Þar bjó sr. Fjalarr einn síðustu árin en flutti á Skjól 30. desember síðastliðinn. Hann hafði fótavist og hugsun skýra uns hjartað gaf sig á hans hinstu stund. Sr. Fjalarr var elstur presta á Íslandi þegar hann lést. Hann var kvaddur frá Áskirkju í Reykjavík 17. þessa mánaðar, en þann dag hefði Beta orðið 100 ára. Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Gunnþóra Gunnarsdóttir