Samkomulag um barnvænt sveitarfélag

0
992

Það var stór stund í Svavarssafni föstudaginn 19. júní þegar félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason, Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri og Birna Þórarinsdóttir framkvæmda­stjóri UNICEF á Íslandi skrifuðu undir samkomulag um samstarf við framkvæmd verkefnisins barnvæn sveitarfélög. Verkefnið felst í því að sveitarfélagið innleiði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga sem UNICEF hefur þróað. Verkefnið er stutt með reglulegum og vel tilgreindum stuðningi félags- og barnamálaráðuneytisins og UNICEF með fræðslu og ráðgjöf.
Með undirskriftinni er staðfest samþykki sveitarfélagsins, að nota Barnasáttmálann sem viðmið og leiðarstef í starfsemi þess. Verkefnið hefst nú á tveggja ára innleiðingarferli. Að þeim tíma loknum getur sveitarfélagið, að uppfylltum forsendum verkefnisins, hlotið viðurkenningu frá UNICEF sem barnvænt sveitarfélag.

Mörg góð og stór skref hafa verið stigin innan sveitarfélagsins í þessa átt undanfarin a.m.k. tíu ár með öflugu ungmennaráði, áheyrnar­fulltrúum ungmennaráðs í nefndum sveitarfélagsins, ungmennaþingum og skólaþingi grunnskólans. Mun sú vinna nýtast og eflast í því verkefni sem er framundan.
Að lokum langar mig að hvetja íbúa sveitarféagsins til að taka þátt í stuttri íbúakönnun vegna stefnumótunar sveitarfélagsins sem nálgast má á heimasíðu sveitarfélagsins www.hornafjordur.is. Þar má einnig finna kynningu á þeirri vinnu og áform um íbúafund í haust.

Ásgerður K. Gylfadóttir,
formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar