Samanburður nokkurra gjalda sveitarfélaga

0
390

Sveitarfélagið Hornafjörður vill að gefnu tilefni bregðast við frétt sem birtist á vef AFL Starfsgreinafélags um hækkanir á gjaldskrám þriggja sveitarfélaga; Sveitarfélaginu Hornafirði, Múlaþingi og Fjarðabyggð. Almennar gjaldskrárhækkanir í sveitarfélaginu eru tengdar þróun vísitölu. Umframhækkanir voru á gjaldskrám umhverfis- og skipulagssviðs og gjaldskrá leikskóla. Til þess að íbúar geti kynnt sér málið betur hafa starfsmenn greint umræddar gjaldskrár fyrir þessi þrjú sveitarfélög. Í þeim fjórtán gjaldliðum sem skoðaðir voru er Sveitarfélagið Hornafjörður átta sinnum með lægsta gjaldið, þrisvar með næst hæsta/lægsta gjaldið og þrisvar með hæsta gjaldið.
Leikskólagjöld í sveitarfélaginu, ásamt fæðisgjöldum, voru hækkuð um 9% þann 1. janúar 2022. Til grundvallar hækkun lá fyrir samanburður gjalda um allt land. Við samanburðinn kom í ljós að gjöldin í sveitarfélaginu eru þónokkuð undir meðaltalsgjaldi, eftir hækkun eru gjöldin 92% af meðaltali fyrir allt landið en einungis þrjú af sambærilegum sveitarfélögum voru með lægri gjöld en Sveitarfélagið Hornafjörður. Systkinaafsláttur er óbreyttur eða 50% með öðru barni og 100% með þriðja barni. Skólamáltíðir hækkuðu einnig og eru nú greiddar 360 kr. fyrir skólamáltíð í grunnskóla. Í þeim sveitarfélögum sem hægt var að nálgast upplýsingar var verð fyrir skólamáltíð á bilinu 370 – 504 kr. máltíðin, þar eru undir öll stærstu sveitarfélög landsins og einnig sveitarfélög af sambærilegri stærð og Sveitarfélagið Hornafjörður.
Varðandi gjaldskrár á umhverfis- og skipulagssviði þá var þeim breytt í samræmi við lagakröfur s.s. að miða skuli við að tekjur fráveitu og vatnsveitu standi undir rekstri þeirra þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði skv. langtímaáætlun. Þá höfðu gjöld vatnsveitu og fráveitu haldist óbreytt frá árinu 2014. Við endurskoðun gjaldskránna var raunkostnaður fyrir veitta þjónustu greindur og taka gjaldliðir mið af meðalkostnaði.
Meðfylgjandi eru helstu gjöld þeirra gjaldskráa sem fjallað er um í fréttinni. Lægstu gjöldin eru grænlituð og þau hæstu rauðlituð.

Fráveita

Í 2. mgr. 15. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitu segir að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði skv. langtímaáætlun veitunnar.

Sorphirða og sorpeyðing

Í 1. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 segir að gjald sem rekstraraðila förgunarstaðar ber að innheimta skuli nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins.
Þá segir einnig í 3. mgr. sömu greinar að gjald sem sveitarfélag innheimtir skuli aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi.

Leikskólar

Í 1. mgr. 27. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 segir að gjaldtaka fyrir hvert barn í leikskóla megi ekki nema hærri fjárhæð en nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins.

Vatnsveita

Í 1. mgr. 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 segir að miða skuli við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir rekstri hennar þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði skv. langtímaáætlun veitunnar.