Ríki Vatnajökuls: Í takt við tímann

0
591
Fríða Bryndís

Síðastliðið ár hefur verið krefjandi og lærdómsríkt ár fyrir ferðaþjónustuna þar sem heimsfaraldurinn COVID-19 hefur haft mikil áhrif á atvinnugreinina um heim allan, og hafa ferðaþjónustuaðilar í Ríki Vatnajökuls ekki verið undanþegnir þeim áhrifum. Þessar aðstæður og slæm fjármálastaða félagsins hefur krafist þess að Ríki Vatnajökuls hefur þurft að endurskoða fyrirkomulag félagsins, meðal annars með því að leggja niður bókunarþjónustu á heimasíðu félagsins. Síðastliðið sumar reyndi vel á sameiningaröfl ferðaþjónustunnar og kostaði sveitarfélagið til markaðsherfarðar og sá um utanumhald á herferðinni. Ferðaþjónustan hoppaði á vagninn og tók virkan þátt og sýndi þar í verki hverju við getum áorkað sem heild þegar á reynir. Herferðin skilaði góðum árangri og tók samfélagsmiðlana og vefsíðuna okkar www.visitvatnajokull.is á hærra plan. Það hefur því verið forgangsverkefni okkar í stjórn Ríkis Vatnajökuls að halda vef- og samfélagsmiðlum virkum og eigum við enn efni til góðs sem var framleitt fyrir sumar herferðina, sem við hlökkum til að grípa í þegar færi gefst.
Lengi hefur verið ákall innan félagsins að færa áherslurnar yfir á markaðsmál og var ákveðið að leggja í þá vinnu að breyta um stefnu félagsins í takt við vilja og þarfir hluthafa félagsins. Nú í janúar sendum við út viðhorfs- og stefnumótunarkönnun til hluthafa okkar og nokkurra annarra aðila sem tengjast starfseminni. Við teljum það í takt við tímann að fara í þessa vinnu og móta skýra stefnu, sýn og markmið félagsins. Svarhlutfall í könnuninni var gott og mun ég stikla á stóru um niðurstöður könnunarinnar.
Hlutverk, gildi og framtíðarsýn Ríkis Vatnajökuls
Skýrt er að hlutverk Ríkis Vatnajökuls er að vera sameinandi afl fyrir ferðaþjónustuaðila í Austur-Skaftafellssýslu sem beitir sér að markaðssetningu á svæðinu til þess að kynna og laða að ferðamenn inn á svæðið. Mikill samhljómur er meðal þátttakenda í könnuninni um hlutverk félagsins, þvert á bakgrunn þátttakenda. Er því hlutverk félagsins sem hér segir:
“Öflugt markaðsfélag sem sameinar ferðaþjónustuaðila innan svæðis ríkis Vatnajökuls”
Einnig vildum við heyra hvaða framtíðarsýn þátttakendur hafa fyrir félagið og er framtíðarsýn félagsins sem hér segir:
“Leiðandi markaðsfélag í íslenskri ferðaþjónustu”
Margvígsleg gildi voru nefnd í könnuninni og mörg með sameiginlega samnefnara. Það voru þó þrír gildishópar sem oftast voru nefndir og eru því ný gildi félagsins sem munu einkenna starf félagsins:
“Samvinna – Fagmennska – Framsýni”

Til umhugsunar

Nokkur svör úr könnuninni beindust að því að sameina ætti annars vegar, Ríki Vatnajökuls ehf. og Ferðamálafélagi Austur-Skaftafellssýslu (FASK) undir einn hatt og hins vegar að leggja ætti niður Ríki Vatnajökul og hafa aðila frá Hornafirði starfandi hjá Markaðsstofu Suðurlands (MSS). Hér verður aðeins komið inná nokkrar ástæður fyrir því að þetta eru ekki taldir vera kostir sem væru til bóta fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu okkar í ríki Vatnajökuls.
Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu – Varðandi sameiningu Ríki Vatnajökuls og FASK, þá er sú trú að annars vegar markaðsmál og hins vegar hagsmunagæsla séu það veigamikil atriði í ferðaþjónustunni okkar að ekki veiti af því að hafa sér félög sem sinna hvorum þætti, sérstaklega þegar stjórnarmenn sinna störfum sínum að mestu í sjálfboðavinnu. Samtalið milli Ríki Vatnajökuls og FASK er hins vegar gríðarlega mikilvægt þar sem þarna eru málaflokkar líkt og gæðamál sem tengjast bæði markaðs- og hagsmunamálum ferðaþjónustunnar beint. Mikið samtal er milli félagana, sem er sífellt að aukast, og koma félögin saman að verkefnum þegar við á. Inn í þetta samtal bætist við ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar, svo allt bakland ferðaþjónustunnar á svæðinu er í stöðugu samtali og boðleiðirnar stuttar. Með þessu formi teljum við að þessum mikilvægu þáttum sé sinnt best og komi best út fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu.
Ríki Vatnajökuls og Markaðsstofa Suðurlands – MSS er markaðsstofa landshlutans Suðurlands en landshlutinn skiptist svo í þrjú svæði: Gullnahringssvæðið – Katla Jarðvangur og Vestmannaeyjar – Ríki Vatnajökuls. Öll þrjú svæðin innan landshlutans fá sýnileika hjá MSS í sínu markaðsefni, það að koma starfsmanni frá okkar svæði inn í MSS yrði ekki til þess að svæðið okkar Ríki Vatnajökuls fengi meiri sýnileika innan MSS, þar sem þeim ber að veita öllum svæðunum jafnan sýnileika. Ef efni MSS er skoðað, þá er Ríki Vatnajökuls að fá sama sýnileika og hin svæðin. Þar kemur að mikilvægi Ríki Vatnajökuls í sínu markaðsstarfi. Markmið RV er að kynna svæðið okkar sem framúrskarandi svæði innan landshlutans og byggja upp sýnileika og vitund á okkar sérstöðu. Aftur kemur hins vegar að mikilvægi samtalsins og hefur Ríki Vatnajökuls verið í reglulegu samtali við MSS, en lengi má gott bæta og stefnum við hjá Ríki Vatnajökuls á að auka það samtal.

Markmið Ríki Vatnajökuls fyrir árið 2021

  • Ríki Vatnajökull setur sér það markmið að 90% hluthafa félagsins séu meðvitaðir um gildi, hlutverk og framtíðarsýn félagsins. Þannig má efla samstöðu innan félagsins og stuðla að því að allir félagar gangi í takt að framtíðarsýn félagsins. Markmiðið verður metið með rafrænni könnun fyrir lok ágúst 2021
  • Ríki Vatnajökull setur sér það markmið að ná 2000 fylgjendum á Instagram reikningi sínum með markvissri markaðssetningu á samfélagsmiðlinum, auk spennandi gjafaleikja fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn í samvinnu með hluthöfum félagsins. Markmiðið verður metið með því að skoða fylgjendatölur miðilsins fyrir árslok 2021
  • Ríki Vatnajökuls setur sér það markmið að skapa aukið verðmæti fyrir heima fyrirtæki Ríkis Vatnajökuls og jafna markaðssetningu fyrir afþreyingu, gistingu og veitingastarfsemi innan félagsins. Lagt verður upp með að ná markmiðinu með vinnu að hagnýtu vörumerki fyrir fyrirtæki úr heimabyggð og stofnun fagteyma fyrir hverja faggrein. Markmiðið verður metið með rafrænni könnun fyrir lok ágúst 2021

Eins og sjá má í þessari lesningu þá setur félagið markið hátt. Við höfum fengið liðsstyrk frá Hornfirðingnum Þorkeli Óskari Vignissyni sem vinnur sem verktaki með okkur að völdum verkefnum. Hann er mikill fagmaður á sínu sviði og gríðarlegur styrkur fyrir starf Ríkis Vatnajökuls.
Stjórn Ríkis Vatnajökuls mun einsetja sér að vinna markvisst að settum markmiðum og framtíðarsýn félagsins. Samtalið er mikilvægara sem aldrei fyrr milli stjórnar, hluthafa, hagsmunaaðila og samfélagsins. Við hvetjum alla til þess að fylgjast með starfi félagsins og vera virkir þátttakendur. Stjórn félagsins mun vera dugleg að miðla verkefnum og upplýsingum líðandi stundar og því sem framundan er, og vinnur hörðum höndum af því að undirbúa markaðsstarfið til að vera klár í slaginn þegar allt fer að detta í gang í ferðaþjónustunni á ný. Við munum sníða okkur stakk eftir vexti og leysa þær áskoranir og verkefni sem okkur eru færð farsællega í sameiningu – því saman erum við sterkari.

F.hönd stjórnar Ríki Vatnajökuls
Fríða Bryndís, stjórnarformaður