Ragnar Arason frá Borg í Mýrum

0
2734

Á Höfn er maður nokkur,- maður sem vert er að kynna fyrir lesendum Eystrahorns. Það finnst mér allavega, og hvað gerir forvitin kona þá í stöðunni? Nú, hún bankar á dyr og lætur bjóða sér í kaffispjall. Maðurinn er hæglátur, kurteis, afar brosmildur og stutt er í glettnina. Með þetta í farteskinu vissi ég að það væri óhætt að knýja dyra og vita hvernig kaffimálin stæðu. Dag einn lét ég til skarar skríða, og frómt frá sagt alls ekki til að sníkja kaffi: Ég ætlaði að kynnast þessum heiðursmanni betur og fá að deila kaffispjallinu með lesendum.

RagnarArasonNov18-8887

Ragnar Arason fæddist á Borg á Mýrum 2. júní 1928 og er því farinn að kíkja á tíunda áratuginn. Hann er einn af 11 systkinum. Elstur var Vigfús, hálfbróðir þeirra, þá Gísli, Fjóla, Guðjón, Lilja, Ástvaldur, Steinunn, Ragnar, Jón, og yngst Hólmfríður, og eru 4 enn á lífi. Mér lék hugur á að skyggnast til æskuára Ragnars, held að við nútímafólkið höfum gott af því að heyra hvernig var að alast upp á þeim tíma. „Ég ólst upp í stórum systkinahópi, og þegar hvert og eitt okkar hafði getu til hjálpuðum við til við búskapinn. Þar fyrir utan áttum við okkur bú sem mikil rækt var lögð í.
Smíðuðum sjálf gripahúsin og áttum þónokkurn bústofn, leggi, kjálka og allt sem gat talist til góðra búhátta“ Þarna var farið að glitta í bros og glampa í augu, því greinilega var ýmislegt brallað sem kveikti góðar minningar. Það var þó ekki alltaf sól og sumar því bújörðin var eins og margar aðrar á Mýrunum umflotin vatni/ám, og því oft erfitt að fara um. Borg og býlið Bakki voru oft innlyksa vegna Hólmsár og Heinbergsvatna. Sérstaklega var oft erfitt yfir sumarið, en á vetrum þegar allt var ísi lagt var auðveldara að fara af bæ. Öll aðföng fóru fram sjóleiðina, en aðal samgöngurnar voru með bátum yfir fjörðinn, og hestar voru mikið notaðir. Menn og hestar voru því vanir gösli í vatni, og yfirleitt slapp allt vel. „ Eitt sinn vorum við að heyja í lok sumars á svokölluðum Borgarteigum. Ég hef verið 13 eða 14 ára. Skammt frá var Fúsi bróðir að heyja ásamt Höllu Sæmundsdóttur konu sinni. Með þeim var Gógó dóttir þeirra. Pabbi sendi mig til að hjálpa þeim sem ég og gerði. Fúsi sagði okkur Höllu að fara heim á undan, hann kæmi með heyfenginn síðar. Ég var á nokkuð liprum hesti og reið á undan Höllu sem var með barnið fyrir framan sig. Borgarkíllinn var stundum varasamur, en ég þekkti vaðið og fór það. Fyrir aftan mig heyri ég þá ópin í Höllu og sá hvar hún var laus og Gógó komin hálfpartinn á kaf. Klárinn lenti í hyl sem hafði myndast í vaðinu og hesturinn ekki syndur, en það var ég! Nýbúinn að læra að synda og gat því komið til hjálpar, en tæpt var þetta í minningunni“ Ég sé á Ragnari að þetta hefur ekki litið vel út. „Það var búið að brýna fyrir öllum að fara varlega í Borgarkílinn, annars gæti farið illa. Gógó var ekkert undanskilin þótt barnung væri: passa sig á Borgarkílnum. Þegar allir voru komnir á þurrt kvað sú stutta upp úr með að: Ekki dó ég nú samt í kílnum! Ég hafði semsagt nýlega lært að synda og kom það sér vel þarna, og sundkennslan skilaði sér. Einhverju sinni var pabbi þarna á ferð, að vanda á góðum vatnahesti en lenti fram af bakka. Gjörðin á hnakknum slitnaði en klár og knapi gátu svamlað í land.
Við Jón bróðir lærðum að synda í Baulutjörn sem var skammt frá Borg, en syntum og lékum okkur oft í Borgarkílnum, þar til Jón fékk lungnabólgu, enda jökulvatn og ískalt. Eftir það lagði mamma blátt bann við sundiðkun í Borgarkílnum!“
Ég spurði ekki hvort þeir bræður hefðu gegnt banninu, hef einhvernveginn þá trú að þeir hafi nú ekki alveg hætt buslinu. Það er greinilegt að Ragnar og Jón hafa verið afar samhentir bræður. „Það sem okkur þótti skemmtilegt var að ná í jaka þegar ísa leysti á vötnunum og sigla þeim“. Ekki þótti þetta hættulaust og komst upp um kauða, en aftur kom glettnisblik í augun á Ragnari , svo minningin hefur verið skemmtileg.
Ekki þættu þetta góðar tvíbökur í dag, þar sem nánast allt er hættulegt. Skólaganga þeirra systkina var eins og tíðarandinn var á árum áður. Fyrst farskóli, ýmist á Borg eða á Bakka. Bæði heimili voru barnmörg, en á Bakka áttu heima systkinin Helgi, Einar, Ari, Guðrún og Inga Hálfdánarbörn. Var mikil gleði þegar barnahópnum sló saman, en yfir vetrartímann var farið á skautum á milli bæja. Seinna var svo kennsla í Fundarhúsinu, sem heitir Holt í dag. Þar var kennt í tveimur bekkjardeildum, yngri og eldri deild, einn mánuð í senn fyrir hvora deild. Þrátt fyrir að leiðin á milli þessara bæja sé ekki löng í dag var annað uppi fyrr á tímum og börnum komið fyrir á nálægum bæjum þann tíma sem skólinn stóð yfir. „ Ég var til að byrja með hjá Hróðmari sem var barnakennari og leið vel, en það var samt eitthvert óyndi í mér svona fyrsta kastið, var sennilega með heimþrá“.
Þegar Ragnar var 10 ára herjuðu á hann veikindi, hann var sí og æ að fá sýkingu sem illa reyndist að lækna. Graftarkýli myndaðist, drengurinn svæfður og læknir stakk á. Þetta voru hinar mestu kvalir, og svæfingin lagðist illa í hann. Að lokum var tekið á það ráð að senda drenginn með flugvél til Reykjavíkur. Fór Ragnar um borð í sjóflugvél sem lá við Hvammsbryggjuna, og nú skyldi meinið lagað. Í þessari ferð var ófrísk kona í sjúkrakörfu og annar farþegi til. Heyrt hef ég sagt að barn ófrísku konunnar sneri öfugt og þurfti hún því að komast undir læknishendur. Þetta var um mánaðarmótin nóv.-des. og Ragnar þá 14-15 ára. Flugvélin keyrði út undir Óslandið, sneri við og ætlaði að taka flugið til norð- vesturs. Veður var gott, sól en nokkuð kalt. Ekki vill betur til en flotholtin á vélinni rekast á sandeyri, sem var undir vatni því það var komið útfall. Í einu vetfangi hvolfist vélin svo allt stóð á haus, fólk hékk í ólunum og útlitið ekki bjart. Engan sakaði þó, og talið er að ófædda barnið hefði snúið sér og fæddist hraustlegur strákur í fyllingu tímans. Eitthvað voru menn ringlaðir og höfðu á orði að þetta væri nú eitthvað skrítið ferðalag. Menn voru fljótir að koma á bátum til bjargar, en Ragnar hinsvegar gleymdist einhvernveginn. Menn hrópuðu nokkuð hastir á hann um að rétta nú fram hjálparhönd. Ragnar var orðinn verulega veikur, kaldur og blautur en komst ekki í land fyrr en vélinni var bjargað. Hann var í jakkafötum!
Fáeinum dögum seinna fór hann aftur í flugvél, en nú með stærri vél frá Melatanga. Ekki reyndist unnt að lækna hann almennilega af ígerðinni í þetta skipti, og var þetta viðloðandi þar til drengurinn var að verða sextugur. Kom þá í ljós að um svokallaðan tvíburabróður var að ræða, ein aðgerð og bingó……
Ragnar og Ástvaldur bróðir hans byggðu sér hús við Norðurbrautina árið 1972 og fluttu þangað ásamt Sigríði móður þeirra. Sigríður flutti svo á Skjólgarð þegar sá tími var kominn. Ragnar keypti hlut Ástvalds í húsinu og árið 1981 giftist hann Helgu Magnúsdóttur, sem látin er fyrir nokkrum árum. Saman ferðuðust þau víða og nutu lífisins, fóru niður alla Evrópu og sleiktu líka sólina á suðrænum slóðum. Helga átti 3 börn, Magnhildi, Guðbjörgu og fóstursoninn Magnús. Barnabörnin eru 9, og hefur Ragnar verið þeim öllum góður afi og mikil fyrirmynd. Þegar Ragnar flutti á Höfn fór hann að vinna sem vélamaður í frystihúsinu, og vann við það alla sína starfstíð. Í dag unir hann sér vel í bílskúrnum, er hagur á tré og liggja eftir hann margir fallegir hlutir. Ragnari hefur verið sýndur mikill heiður bæði hér heima og á landsvísu. Hlaut Menningarverðlaun Hornafjarðar, og 2010 var hann valinn besti handverksmaður ársins á handverkssýningu í Hrafnagili í Eyjafirði.
Ragnar, ásamt öllum systkinunum frá Borg voru með eindæmum söngelsk. Þær hafa sagt það systur hans að fjögurra radda sálmasöngur hafi hljómað vel á bæjarhólnum. Ég get fullyrt að lög og ljóð hafa ekki þvælst fyrir Borgarsystkinunum Ragnar söng með kirkjukórnum á Mýrum, var stofnfélagi karlakórsins Jökuls, söng í fjöldamörg ár með kirkjukór Hafnar og syngur enn með Gleðigjöfum. Hann er eldhress, klifrar í stiga með jólaljósin og fer í göngutúra á hverjum degi.
Það er ekki hægt að sleppa Ragnari án þess að spyrja um jólahald á æskuheimilinu. „Jólin voru hátíðleg, þótt ekkert væri jólatréð heima, en jólatré var galdrað fram á jólatréskemmtunum. Við systkinin fengum öll 10-12 jólakerti á aðfangadagskvöld, það var ekki mikið um jólagjafir. Öll fengum við ullarnærföt, sokka og heimagerða sauðskinnsskó. Þeir voru fallegir, með hvíta bryddingu. Skinnið var sett í svokallaðan alún vökva, bölvað eitur, fallegt þegar það var komið á skóna.
Þeir voru grænir, litaðir með blásteini. Allt var þetta heimagert. Matur var hangikjöt, og alltaf bestu bitarnir auðvitað, svo var niðursoðið lambakjöt. Það var mikið bakað og alltaf nóg af kaffibrauði. Pabbi las alltaf húslestur á aðfangadagskvöld og við sungum jólasálma. Húslesturinn var alltaf úr bók Haraldar Níelssonar, Árin og eilífðin.
Jólapredikunin í þeirri bók heitir Það er yfir þér vakað. Virkilega fallegur texti. Svo kemur það skrítna og skemmtilega: við krakkarnir hengdum sokkinn okkar upp á aðfangadagskvöld, því Santa Claus setti góðgæti í hann sem við bruddum svo á jóladeginum“ Ég hváði, og varð hugsað til dóttursonanna í Ameríku sem setja sinn sokk upp á jólum. „ Við Lilja systir höfum verið að spjalla um þetta, og ég hef þá kenningu að pabbi, sem lærði verslunarrekstur á sínum tíma og talaði dálítið í ensku hafi séð þetta í amerískum blöðum sem hann las. Á gamlárskvöld var líka lesinn húslestur úr sömu bók og sungið. Haraldur Níelsson var mikill spíritisti, en það voru foreldrar mínir ekki. Bókin var bara svo góð. Aðspurður um brennur og því um líkt á gamlárskvöldi kom svar fljótt.“ Nei, mér var illa við svoleiðis, var myrkfælinn og hræddur við álfa. Siggi bróðir átti haglabyssu sem hann skaut af tveimur púðurskotum út í loftið gerði mig skelfingu lostinn. Ég kúrði mig á milli mömmu og pabba því þar var öryggið“.

Ég þakka Ragnari kærlega fyrir spjallið og ómælt kaffi og konfekt. Það var gott að koma til hans, heimilið ber vitni um mikla natni og hefur góða sál. Það er mikill fengur að þekkja Ragnar Arason.

Guðlaug Hestnes