Rafíþróttadeild Sindra

0
398

Rafíþróttadeild Sindra leggur kapp á að gefa börnum og unglingum í Sveitarfélaginu Hornafirði kost á markvissum æfingum og heilbrigðum spilaháttum þegar kemur að rafíþróttaiðkun.
Þar að auki er tilgangur deildarinnar að fræða iðkendur og forsjáraðila um muninn á rafíþróttum og tölvuleikjaspilun.
Það er okkar trú að markvissar æfingar á tölvuleikjum í réttu umhverfi geti haft jákvæð áhrif á iðkendur.
Starf Rafíþróttadeildar Sindra hófst að nýju 1. nóvember 2022 eftir dvala en deildin var stofnuð árið 2019.
Stofnaðilar voru: Guðjón Örn Magnússon, Sæmundur Jónsson, Agnar Jökull Imsland og Johnro Derecho Magno ásamt þáverandi framkvæmdastjóra Ungmennafélagsins, Lárusi Páli.
Á þessari vorönn voru ráðnir sex þjálfarar; Sölvi Ólafsson yfirþjálfari, Victoría Rós aðstoðar-yfirþjálfari, Lea Sól, Haukur Örn og Björgvin Ingi.
Deildin er elsta aðildarfélag Rafíþróttasambands Íslands og starfar eftir settri stefnu sambandsins ásamt því að halda úti tveimur keppnisliðum í Counter-Strike: Global offensive. Stefna er sett á að brátt verði keppnislið frá Sindra í fleiri deildum á Íslandi.
Í lok árs 2022 voru 46 iðkendur skráðir í deildina og með tilkomu nýrrar aðstöðu deildarinnar í Viðreisn, húsakynnum í eigu Skinneyjar-Þinganess, vonast deildin til þess að geta tekið við þeirri aðsókn sem berast kann næstkomandi tímabil. Skinney-Þinganes er orðinn stærsti styrktaraðili deildarinnar fyrir það framtak.
Sérstakar þakkir fá Hirðingjarnir fyrir veglega gjöf, en þau keyptu fimm tölvur
og tölvuskjái fyrir rafíþróttadeildina sem hraðspólaði framþróun starfsins til muna og eiga miklar þakkir skilið.

Með vinsemd,
Róbert Marvin Gunnarsson
Formaður Rafíþróttadeildar UMF. Sindra