Ráðstefna um loftslagsmál á Hornafirði

0
1592

Þann 22. nóvember næstkomandi verður haldin loka ráðstefna verkefnis sem kallast CLIMATE. Það er verkefni sem leitast við að finna lausnir til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.
CLIMATE leiðir saman ólíka hagsmunaaðila með það sjónarmið að vinna að lausnum fyrir fjögur mismunandi svæði; Norður Írland, Svíþjóð, Lýðveldið Írland og Færeyjar. Auk þess eru einstaklingar í Finnlandi, Skotlandi, Noregi og Íslandi aðilar að verkefninu. Þessir fjölþjóðlegu samstarfsaðilar eru ýmist notendur, stefnumótendur, fræðimenn eða starfsmenn stofnana og sveitarfélaga. Vettvangurinn er því góður til þess að miðla þekkingu á milli landa.
Verkefnið leitast við að bera kennsl á og greina vandamál tengd loftslagsbreytingum og út frá því þróa líkan sem miðar að því að finna bestu starfshætti til aðlögunar að loftslagsbreytingum.
Á ráðstefnunni, sem haldin verður í Hoffelli í Hornafirði, föstudaginn 22. nóvember, verður skoðuð þróun þessa líkans og skýrt frá vinnu samstarfsaðilanna. Þar verður einnig skoðað hvernig hægt er að aðlaga skipulag, viðbúnað og þol opinberrar þjónustu og annars rekstur að loftslagsbreytingum.
Að lokum verður fjallað um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og hvort og þá hvernig þurfi að bregðast við þeim. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur mun fjalla um loftslagsbreytingar á Íslandi, Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur mun fjalla um jöklabreytingar og Steinunn Hödd Harðardóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs mun fjalla um þjóðgarðinn og áhrif loftslagsbreytinga á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.
Fundarstjóri verður Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Fyrir hönd verkefnisins,
Kristín Hermannsdóttir og Steinunn Hödd Harðardóttir