Ostur í dulargervi

0
553

Íslenskir bændur eiga skilið að staðið sé við gerða samninga og að þeir sitji við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra. Flest ríki í heiminum nota tolla til að vernda sinn landbúnað. Það gera sér allir grein fyrir mikilvægi þess að hlúa að landbúnaði og þar með að tryggja fæðuöryggi þjóðar. Í ljós hefur komið að umfangsmikill misbrestur hefur orðið á tollskráningu landbúnaðarafurða frá Evrópu til Íslands. Það er ekki nóg að hafa tollasamning ef innflutningsaðilar fara ekki eftir honum og opinbert eftirlit er ekki fullnægjandi.

Ostur fluttur inn sem ostalíki í tonnavís

Í minnisblaði sem barst nefndinni frá Bændasamtökum Íslands kemur fram að árið 2019 hafi verið flutt inn 299 tonn af mozzarellaosti með viðbættri pálmaolíu. Við nánari athugun kom svo í ljós að um var að ræða annarsvegar mozzarellablöndu þar sem uppistaðan er um 83% ostur og í hinu tilvikinu er um að ræða 100% ost. Til framleiðslu á þessu magni af osti þarf um 3.000.000 lítra af mjólk en það svarar til ársframleiðslu 8-10 íslenskra kúabúa. Eftir að grunsemdir vöknuðu um ranga skráningu óskaði MS eftir bindandi áliti skattsins um tollflokkun á tveimur tilteknum vörum.

Viðbrögð yfirvalda

Fjármálaráðneytið hefur staðfest að þessi mozzarellaostur, eigi að bera toll enda sé hann ostur en ekki ostalíki. Þrátt fyrir það hafa tollayfirvöld ekki enn lagt toll á vöruna, en 48 tonn voru flutt inn í ágúst. Þingmenn Framsóknarflokksins áttu frumkvæði að því að málið var tekið upp í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Nefndin hefur ekki lokið sinni umfjöllun en vinna nefndarinnar og fjármálaráðuneytisins hefur nú þegar staðfest að það er fullt tilefni til að skoða þessi mál nánar og bregðast við með viðeigandi hætti.

Tap ríkissjóðs og töpuð störf

Einhverjir halda því fram að hér sé um að ræða misbrest á framkvæmd samninga. Hvernig er hægt að nota slíkt orðalag þegar kerfisbundið er verið að flytja inn afurðir úr mjólk, kjöti, eggjum og grænmeti fram hjá kerfinu til þess að losna við að borga skatta í ríkissjóð? Ríkissjóður verður af gífurlegum fjárhæðum, verið að setja störf innanlands í hættu, bændur og neytendur hljóta skaða af.
Íslenskir bændur hafa ekki burði til þess að standa undir samkeppni á innfluttum landbúnaðarvörum þegar þær eru fluttar inn á undirverði og án tolla. Við verðum að standa vörð um íslenskan landbúnað, tryggja fæðuöryggi og störf í landinu.

Áfram veginn!
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins