Óslandið tekið í gegn

0
1073
Theódór Árni Stefánsson með fullt fangið af rusli

Laugardaginn 5. maí síðastliðinni blésu Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu til strandhreinsunar. Tilefnið var Norræni strand­hreinsunardagurinn sem er samnorrænt átak þar sem strendur eru hreinsaðar af plasti og öðru rusli. Í ár var það Óslandið á Höfn og fjörurnar þar sem urðu fyrir valinu.
Rétt um 30 sjálfboðaliðar mættu við Gömlubúð á laugardagsmorgni og létu smá rigningu og rok ekki stoppa sig í að hreinsa Óslandið, það var sérlega skemmtilegt að sjá þá frambjóðendur í komandi sveitarstjórnarkosningum sem sáu sér fært að mæta. Það voru ansi margir pokar sem fylltust af plasti, rusli og drasli á þessum rúmum tveimur tímum sem gangan stóð yfir. Í fjörunum vestantil var áberandi mikið af blautþurrkum og öðrum hreinlætisvörum sem fólk sturtar niður í klósettið. Það er mikilvægt að við áttum okkur öll á því að slíkt á ekki heima í skólpinu okkar, þar sem það getur valdið miklum stíflum og er einstaklega slæmt fyrir umhverfið. Í Óslandinu sjálfu var áberandi mikið af nammibréfum og matarumbúðum. En austast og við höfnina var mikið af rusli sem hefur komið frá starfsemi í sjávarútveginum.

Frambjóðendur til Sveitarstjórnakosninga létu sig ekki vanta.
Frambjóðendur til Sveitarstjórnakosninga létu sig ekki vanta.

Að hreinsun lokinni voru grillaðar pylsur í Skreiðarskemmunni í boði Nettó.
Við viljum nota tækifærið og þakka öllum sjálfboðaliðunum sem mættu fyrir þátttökuna. Sveitarfélagið Hornafjörður fær þakkir fyrir að taka við sorpinu, Iceguide fær sérstakar þakkir fyrir að koma með bæði starfsfólk og kerru fyrir ruslið og síðast en ekki síst Nettó sem bauð upp á grillveisluna.
Að lokum viljum við biðja alla áhugasama um að taka frá laugardaginn 15. september næstkomandi, en þá höldum við upp á alþjóðlega strandhreinsunardaginn.

Krakkarnir tóku líka til hendinni
Krakkarnir tóku líka til hendinni