Öræfi, þörf fyrir uppbyggingu í einstöku sveitasamfélagi

0
274
Innanhúss íþróttaaðstaða Öræfinga í Káraskjóli, en Klifurfélag Öræfa er eitt 6 klifurfélaga á landinu. Hér æfa börnin klifur sem og fullorðnir. Á veturna er húsið að jafnaði opið fjögur kvöld í viku.

Með lækkandi sól, eykst tíminn fyrir tölvuskrif. Síðasta vor var Kex framboð stofnað og gekk ég til liðs við þau þar sem að Kex tók skýra afstöðu með dreifbýli sveitarfélagsins og uppbyggingu innan þess. Við íbúar í Öræfum búum lengst frá þéttbýli sveitarfélagsins, allt að 140 km og getum því stundum verið aftengd því sem gerist þar og þeirri góðu þjónustu sem boðið er uppá á Höfn.
Þegar ég flutti í Öræfin sem lítil stelpa árið 1998 bjuggu hér 109 íbúar en í dag eru 228 skráð með lögheimili hér. Og þá eru undanskilin öll þau sem starfa hjá umfangsmiklum fyrirtækjum á svæðinu sem eru með lögheimili annars staðar. Það má því ætla að í Öræfum séu að meðaltali 350 manns á ársgrundvelli. Sú tala er svo töluvert hærri yfir sumartímann. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu íbúa hefur þjónusta á svæðinu lítið breyst á síðustu 25 árum. Ég tel mikla þörf á að byggja upp í Öræfum til að gera svæðið enn meira aðlaðandi sem búsetukost. Sem stendur er engin íþróttaaðstaða til staðar fyrir íbúa sveitarinnar. Börn í Öræfum æfa klifur í Káraskjóli sem er aðsetur björgunarsveitarinnar Kára. Þar fer einnig fram almennt starf björgunarsveitarinnar og hýsir húsið björgunarsveitabíla og slökkvibíl en ásamt því eru taldar dósir í húsinu. Það gefur augaleið að slíkur staður er hvorki ákjósanlegur né ásættanlegur fyrir íþróttaiðkun barna eða fullorðinna til lengri tíma. Ég tel það brýnt að byggt verði fjölnota íþróttahús við Hofgarð á Hofi.
Það er mikilvægur þáttur í lýðheilsu íbúa og félagslífi að geta hist í hópíþróttatíma eða ræktarsal til að rækta félagslegu hliðina jafnhliða þeirri líkamlegu. Fjölnota íþróttahús myndi nýtast öllum íbúum og börnum Öræfa til íþróttaiðkunar, hvort sem það er blak, körfubolti, klifur eða lóðalyftingar. En eins myndi húsið nýtast fyrir kennslu í fjallamennskunámi FAS, ráðstefnuhöld, námskeið og veislur svo eitthvað sé nefnt. Í húsinu væri einnig hægt að útbúa skrifstofurými og gætu þau fjölmörgu fyrirtæki sem starfa í Öræfum búið til vinnustað saman. Þetta myndi einnig gagnast starfsmönnum sveitarfélagsins sem þurfa oft að taka vinnudag í Öræfum vegna framkvæmda hér en hafa til þess ekkert aðsetur.
Ég vona að önnur framboð í sveitarfélaginu taki undir þá stefnu sem Kex stendur fyrir og að við getum öll hjálpast við að gera sveitarfélagið sem heild að ákjósanlegum búsetustað fyrir enn fleiri.

Íris Ragnarsdóttir Pedersen skipar 9unda sæti Kex, er íbúi í Öræfum, leiðsögumaður og kennari við fjallamennskunám FAS.