Óperutónleikar á Höfn 24. september

0
1105

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands heldur óperutónleika í Hafnarkirkju sunnudaginn 24. september klukkan 20.00. Einsöngvarar á tónleikunum verða Alexander Jarl Þorsteinsson tenór og Monica Iusco sópran. Kvennakór Hornafjarðar kemur einnig fram á tónleikunum en stjórnandi hans er Heiðar Sigurðsson.

Þetta er í annað sinn á stuttum ferli sem Sinfóníuhljómsveit Suðurlands heldur tónleika á Höfn enda metnaðarmál aðstandenda að spila sem víðast í landshlutanum og vera þannig hljómsveit allra Sunnlendinga. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru vorið 2022 og þá var Vínartónlist á efnisskránni og Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú einsöngvari.

Auk óperutónleikanna heldur hljómsveitin skólatónleika fyrir nemendur grunnskólans. Þar verður m.a. flutt tónverkið Stúlkan í turninum eftir Snorra Sigfús Birgisson tónskáld. Tónverkið samdi hann við samnefnda sögu Jónasar Hallgímssonar og skólatónleikunum líkur með því að nemendur syngja með hljómsveitinni lag sem þau hafa æft með kennurum sínum.

Hljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands er Guðmundur Óli Gunnarsson.