Ólafsvík, Hornafjörður og hörmulegt sjóslys

0
2213
Bjartmar Orri, Sigurborg Kristín og sr. Guðmundur Örn fyrir framan Pakkhúsið í Ólafsvík.

Séra Guðmundur Örn Ragnarsson var nýlega á ferðalagi um Snæfellsnes ásamt konu sinni Jónínu Láru Einarsdóttur og syni Bjartmari Orra Arnarsyni. Komu þau m.a. við í Ólafsvík.
Gamla pakkhúsinu á staðnum var reist árið 1844 og í því er merkilegt byggðasafn. Þar var litið inn.
Þegar Sr. Guðmundur Örn kastar kveðju á ungu konuna, sem tekur á móti gestum í Pakkhúsinu, svarar hún á hreinni íslensku. Kvaðst presturinn undrandi á því að talað væri á íslensku en ekki á ensku á slíkum stað, því nú um stundir væri það til siðs að útlendingar sem ekki kynnu íslensku væru hafðir til að útskýra íslenska þjóðhætti á stöðum sem þessum víðsvegar um landið.
Konan unga kveðst þá ekki aðeins vera Íslendingur heldur væri hún innfæddur Ólsari. En bætir síðan við að hún eigi einnig ættir að rekja til Hafnar í Hornafirði. Kvað hún mömmu sína hafa farið frá Ólafsvík, til Hafnar í vinnu tímabundið og kynnst þar föður hennar og hann fluttst með henni til Ólafsvíkur, en hann var yngsti sonur Ólafs Runólfssonar skipstjóra á Helga SF-50, sem fórst 15. september 1961. En hún sé fædd Ólafsvíkingur.
Við þessi orð ungu konunnar tók Sr. Guðmundur Örn viðbragð og sagðist þekkja vel til hennar fólks á Hornafirði.
Það skal tekið fram að hvorki hafði þessi unga kona kynnt sig né heldur sr. Guðmundur Örn. Eina nafnið sem nefnt hafði verið var nafn afa hennar, Ólafs Runólfssonar.
Þá fór sr. Guðmundur að nefna nöfn annarra ættingja hennar á Höfn, eins og langafa hennar, Runólf og langömmu hennar Sigurborgu. Og þá lifnaði heldur betur yfir ungu konunni sem kvaðst heita eftir langömmu sinni á Höfn í Hornafirði, en nafn sitt sagði hún vera Sigurborg Kristín Ólafsdóttir.
Bræðurnir Ólafur Runólfssonar og Bjarni Runólfsson sem fórust báðir í þessu hörmulega sjóslysi 15. september 1961 og voru báðir feður fjögurra ungra barna. Yngsta barn Ólafs var þá eins árs, Ólafur Helgi Ólafsson, er faðir Sigurborgar Kristínar. Yngsta barn Bjarna var aðeins 3ja mánaða, Bjarnheiður Sigurborg.
Sr. Guðmundur Örn vissi nú, að skyldleikatengsl væru milli hans og þessarar ungu Sigurborgar Kristínar. Og það reynist vera í 4. og 5. lið frá hjónunum Runólfi Þórhallssyni f. 22. maí 1831 og konu hans Róshildi Bjarnadóttur f. 22. apríl 1832.
Sömu nöfnin koma síðan fyrir í báðum ættleggjum. Afabróðir sr. Guðmundar Arnar hét Runólfur Bjarnason f. 3. desember 1884 og bjó í Skaftafelli í Öræfasveit, reyndar síðasti bóndinn í Selinu í Skaftafelli. Langafi Sigurborgar Kristínar, hét einnig Runólfur Bjarnason f. 4. nóvember 1891 bjó á Höfn í Hornafirði en hann var nefndur hér að framan.
En aðalástæðan fyrir því hversu vel
presturinn þekkti til fólks Sigurborgar Kristínar á Höfn var sú að faðir sr. Guðmundar Arnar var Ragnar Kjartansson myndhöggvari, sem fæddist á Staða-Stað á Snæfellsnesi 17. ágúst 1923, var náinn vinur Bjarna Runólfssonar sem fórst ásamt bróður sínum Ólafi Runólfssyni með Helga SF-50.
Vinirnir Bjarni og Ragnar kvæntust tveimur systrum frá Skaftafelli í Öræfasveit, þeim Rögnu Sigrúnu og Katrínu Guðmundsdætrum. Sú síðarnefnda var móðir sr. Guðmundar Arnar.
Bjarni Runólfsson var lengi stýrimaður á olíuskipinu Kyndli, sem dreifði olíu á hafnir umhverfis Ísland. En árið 1960 fékk sr. Guðmundur Örn pláss á skipinu sem hjálparkokkur, þá aðeins 14 ára gamall. Var það að tilhlutan Bjarna Runólfssonar.
Vert að geta þess að sr. Guðmundur Örn Ragnarsson þjónaði sem prestur þjóðkirkjunnar á Höfn frá 1989 til 1990 og endurnýjaði þá gömul kynni við ættingja Sigurborgar Kristínar.

Hér að neðan má sjá frétt sem birtist í Morgunblaðinu 17. september 1961 en nú í september eru liðin 60 ár frá slysinu.

Hörmulegt sjóslys við Færeyjar

Sjö Íslenskir sjómenn farast

Tveir komust af, er Helgi frá Hornafirði fórst
Sá hörmulegi atburður varð um hádegisbil á föstudaginn 15. september 1961, að vélbáturinn Helgi SF-50 frá Hornafirði fórst í ofsaveðri skammt vestur af Færeyjum og með honum sjö ungir menn, sá elzti um fertugt. Tveir af áhöfninni komust af og var þeim bjargað um borð í skozkan fiskibát eftir að þá hafði hrakið fyrir sjó og vindi í gúmmíbát í tæpan sólarhring. Það var ekki fyrr en í gærmorgun, að vitnaðist um slysið.
Skozki línubáturinn Verbena, sem þá var staddur skammt suður af Suðurey í Færeyjum, kallaði laust fyrir kl. 10 f. h. og sagðist hafa bjargað tveimur íslenzkum skipbrotsmönnum. Togarinn Þormóður goði var á svipuðum slóðum, á leið frá Þýzkalandi, og hafði Marteinn Jónasson, skipstjóri, þegar samband við hið skozka skip. Sagði skozki skipstjórinn, að skip íslendinganna hefði sokkið mjög snögglega um hádegisbil á föstudag. Hefði komið á það hnútur, sem hvolfdi skipinu í einu vetfangi svo að ekki vannst tími til að kalla á hjálp.

Helgi SF 50 með góðan afla á Siglufirði. Mynd: Hannes Baldvinsson

Hafði skozki skipstjórinn það og eftir skipbrotsmönnum, að vonlaust væri að fleiri hefðu komizt af. Skipbrotsmennirnir töldu, að Helgi hefði verið staddur því sem næst á 60,45 gr. n. br. og 9 gr. v. l., er slysið varð, en skozka skipið fann þá um 25 mílur suður af Suðurey og mun þá hafa rekið 60 mílur eða því sem næst þegar þeir fundust.
Eins og fyrr segir var þarna aftakaveður. Þormóður goði sendi fréttina strax til Íslands og þessi hörmulegu tíðindi komu eins og reiðarslag.
Helgi var á heimleið frá Bretlandi, hafði siglt utan með ísaðan fisk. Áhöfnin var öll ungir og vaskir menn, flestir frá Hornafirði.
Bræðurnir Ólafur og Bjarni Runólfssynir keyptu Helga SF 50 í vor og þegar slysið varð, voru þeir að koma heim úr fyrstu siglingunni.
Ólafur var skipstjórinn, 28 ára gamall, kvæntur og fjögurra barna faðir.
Bjarni bróðir hans var háseti, fertugur að aldri, kvæntur, fjögurra barna faðir og átti heimili að Sogavegi 116 hér í bæ.
Bróðursonur þeirra, Trausti Valdimarsson, 2. vélstjóri, var undir tvítugu. Hann var búsettur að Birkihlið 20, Kópavogi.
Olgeir Eyjólfsson, mágur þeirra Ólafs og Bjarna, var háseti, 32 ára, kvæntur og þriggia barna faðir.
Einar Pálsson, 1 vélstjóri, 28 ára en ókvæntur. Hann lætur eftir sig aldraða foreldra á Hornafirði.
Birgir Gunnarsson, 19 ára, háseti, sonur Gunnars Snjólfssonar, fréttaritara Mbl. á Hornafirði og
Björn Jóhannsson, stýrimaður, úr Suðursveit, 26 ára.
Mennirnir, sem björguðust voru Helgi Simonarson, matsveinn, ættaður úr Hafnarfirði. Hann er tengdasonur Gunnars Snjólfssonar og búsettur á Hornafirði. Hinn er Gunnar Ásgeirsson, háseti, Hornafirði.
Helgi SF 50 var 56 tonna eikarbátur, byggður í Danmörku 1956. Þeir bræður keyptu bátinn í vor og voru að togveiðum í sumar. Þeir veiddu sjálfir aflann, sem þeir sigldu með í þessari ferð.

Morgunblaðið. 17. september 1961.