Haustþing Þórbergsseturs verður haldið laugardaginn 4. nóvember og hefst kl 11:00 um morguninn. Eins og yfirskrift málþingsins ber með sér verður fjallað um konur á 19. öld, þar sem Oddný á Gerði (1821-1917) verður fremst í flokki.
Þeir Þórbergur og Steinþór Þórðarsynir gerðu hana ódauðlega með skrifum sínum og aðdáun á gáfum hennar og dugnaði. Þórbergur skrifar einhver fallegustu eftirmæli sem nokkur kona getur fengið þegar hann segir eftir andlát hennar: ,,Með dauða Oddnýjar slokknaði bjartasta ljós Suðursveitar sem þar logaði í minni tíð.”
Málþingið hefst klukkan 11:00 að morgni, laugardaginn fjórða nóvember næstkomandi. Til liðs við okkur kemur Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur sem hvað mest hefur helgað starf sitt á undanförnum árum kvennasögu og rannsóknum á kjörum kvenna. Hún kallar erindi sitt ,,Ein skrifandi kona í Suðursveit. Oddný á Gerði í sögulegu samhengi.” Erindi hennar fjallar um Oddnýju á Gerði sem var sögð bráðgáfuð og víðlesin – eina skrifandi konan í Suðursveit um 1850.
Steinþór og Þórbergur Þórðarsynir draga upp myndir af henni í bókum sínum sísegjandi sögur og kveðandi rímur, konunni sem kom með ,,menninguna” í Suðursveit. En hver var hún og hvað var svona sérstakt við hana? Í erindinu verður rætt um lífshlaup Oddnýjar í samhengi við sögu kvenna og samfélag nítjándu aldar þar sem stúlkur og konur bjuggu yfir gáfum og getu til þess að læra við misgóð tækifæri.
Tekið verður gott hádegishlé, en næsta erindi flytur Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur undir
yfirskriftinni; ,,Þórbergur og gamlar konur.” Eitt af því sem Þórbergur dáði framar öðru í fari fólks var frásagnarsnilli og þekking á kvæðum og sögum. Þessa hæfileika fann hann ekki síst hjá gömlum konum.
Á æskuárum hans á Hala var það Oddný á Gerði sem bar af öðrum í þessum efnum en Þórbergur segir hana hafa kunnað,,kynstrin öll af merkilegum alþýðufróðleik, dulrænum sögnum, mannlýsingum, kviðlingum, ættvísi o.fl”. Á fullorðinsárum í Reykjavík kynntist Þórbergur skáldkonunum Herdísi og Ólínu Andrésdætrum og fann hjá þeim sömu hæfileika og hefur hann lýst kynnum sínum af þeim á einkar skemmtilegan hátt. Í erindinu verður fjallað um samband Þórbergs við þessar gömlu konur og einnig vikið að kynnum hans við Láru Ólafsdóttur sem Bréf til Láru er stílað til.
Þriðja og síðasta erindið flytur Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs. Þar birtast sögur af nokkrum konum á Sunnansandabæjum sem bjuggu þar samtíða Oddnýju. Lýst verður kjörum þeirra og aðstæðum, barneignum og ótrúlegum örlagasögum sem tengjast miklum barnadauða, – en einnig óbilandi dugnaði, krafti og samstöðu þar sem þær létu ekki bugast, lifðu menn sína, stóðu fyrir búi og sýndu áhuga á að finna leiðir til betra lífs m.a. með bóklestri og fræðslu.
Einnig verða spilaðar gamlar upptökur, samtöl og frásagnir Steinþórs á Hala og Þórbergs um Oddnýju og frásagnir og söngur Steinunnar Guðmundsdóttur á Hala.
Allir eru velkomnir í heimsókn í Þórbergssetur þennan dag. Dagskráin endar með kaffiveitingum og spjalli og lýkur eigi síðar en kl. 16:00.