Ný verslun í kjallara kaupmannshússins

0
901

Otto Veitingahús & Verslun er lítið fjölskyldufyrirtæki stofnað vorið 2018 af Auði Mikaelsdóttur framreiðslumeistara og Andrési Bragasyni matreiðslumeistara. Frá upphafi hefur starfsemi Otto verið ætluð heimamönnum fyrst og fremst. Handverkið er í hávegum haft og allt er lagað frá grunni. Öll soð, sósur, marineringar, allur bakstur og öll matreiðsla er unnin frá grunni. Það er okkar sérstaða. Við höfum bakað súrdeigsbrauð og kanilsnúða, boðið uppá námssamninga í bæði matreiðslu og framreiðslu og getað skapað nokkur stöðugildi fyrir Hornfirðinga.

Veitingahúsið er starfrækt í elsta íbúðarhúsinu á Höfn sem á sér ríka sögu og skipar sérstakan sess í hjörtum heimamanna. Mikil gróska hefur verið í veitingaflóru Hornafjarðar og öflugri ferðaþjónustu enda fjöldi ferðamanna gífurlegur. Þannig hefur þrifist fjöldi veitingastaða á svæðinu. Í kjölfar heimsfaraldurs neyddumst við til þess að leggja niður hefðbundna starfsemi og reyna að finna okkur nýjan farveg í gjörbreyttu umhverfi. Veitingastarfsemin felst nú í pop up viðburðum um helgar þar sem við bjóðum heimamönnum í heimsreisu innanhúss með nýjum áfangastöðum vikulega. Við höfum því ferðast saman með okkar góðu gestum um veröldina þvera og endilanga og smakkað allskonar góðgæti frá öllum heimshornum. Á tímum samkomutakmarkana er Otto líka heppilegur fyrir litla hópa sem tilheyra sömu jólakúlu, vinnustað eða öðru sameiginlegu mengi. Hornfirðingar eru raunagóðir og hvetjandi og þeir standa með stöðunum sínum. Líklega hafa heimamenn aldrei verið jafn duglegir að borða úti og sækja sér mat til að taka heim! Við erum einnig að bjóða upp á nýjung á Höfn sem er ítalski heimapakkinn þar sem fólk sækir matarpakka sem inniheldur hálftilbúin rétt sem aðeins þarf að hita upp heima, nýbakað brauð úr steinofninum og eftirréttur.

Verslun í kjallaranum

Hugmyndin að baki verslun í kjallara kaupmannshússins kviknaði í kjölfar covid. Íslendingar eyða nú mestum tíma sínum inni á heimilunum og flestir vilja prýða umhverfi sitt og skapa gæðastundir með fjölskyldunni. Kjallari hússins hafði ekki nýst okkur svo mánuðum skipti en ýmis tilraunastarfsemi hefur farið fram þar. Í aðdraganda aðventunnar skynjuðum við í raun einnig að fólk veigrar sér við að ferðast milli landshluta. Netverslun er auðvitað gríðarleg en það felast einnig lífsgæði í því að geta rölt í búðir, skoðað og handleikið hlutina og auðvitað verslað í sinni heimabyggð.
Við erum einnig að tengja saman veitingahúsið og verslunina og bjóðum upp á veglegan jólapakka, fullan af kræsingum sem felast í afurðum úr heimabyggð og sælkeravörum úr verslun. Tilvalin jólagjöf fyrir þá sem eiga allt, vini, starfsmenn, fjölskyldur og alla þá sem elska góðan mat, nær og fjær. Frá og með næstu helgi ætlum við svo að hafa sannkallaða jólagleði í húsinu þar sem opið verður í bæði verslun og á veitingahúsi til kl.22 öll kvöld til jóla og allir velkomnir að fá sér ljúffengan bita og kíkja í búðina til að draga inn jólastemningu. Veitingarnar verða með hátíðlegum blæ og innblásnar af dönskum jólasið. Julefrukost laugardag og sunnudag frá kl.12-22 og svo Julebord mánudag, þriðjudag og á Þorláksmessu frá kl.17-22. Smörrebröd, ostar, jólabjór, ákavíti, jólatré, jólalög og fullt af fallegum varningi í verslun. Þar er mikið úrval af heimilsprýði ss púðar, kertastjakar, teppi, bakkar, gjafapappír, ilmkerti, bað- og snyrtivörur, hillur, speglar, sælkeradeildin og margt fleira fallegt. Gjafabréfin okkar gilda þannig bæði í verslun og á veitingahúsi og þau renna ekki út. Við leggjum ríka áherslu á gæði, upplifun og góða þjónustu. Þannig standa vonir okkar til þess að lítil verslun með heimilisprýði, sælkeravörur og lekkerí geti sent fallega hluti og hamingju inná heimili Hornfirðinga jafnt á jólum sem og öllum öðrum tímum og veitingahúsið haldi áfram að þjóna matgæðingum. Við þökkum Hornfirðingum og öllum öðrum gestum fyrir að fylgja okkur fyrsta spölinn og hlökkum til næstu skrefa saman.

Gleðilega hátíð!