Ný bókunarsíða Ríkis Vatnajökuls

0
1321

Í ríki Vatnajökuls hefur byggst upp öflug ferðaþjónusta með úrvali afþreyinga, gistinga og veitingastaða og nú er ferðaþjónusta önnur af stærstu atvinnugreinunum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Matvæla-, menningar- og ferðaþjónustuklasinn Ríki Vatnajökuls ehf. er nú kominn á sitt ellefta starfsár og eru hluthafar í kringum áttatíu og má segja að flestir þeirra starfi við afþreyingu, gistingu, veitingaþjónustu og í tengdum greinum.
Á árinu 2017 var ákveðið að ráðast í gerð nýrrar heimasíðu fyrir Ríki Vatnajökuls sem væri með bókunarþjónustu og fékkst til þess styrkur frá Vinum Vatnajökuls. Nýr starfsmaður var ráðinn til eins árs til að halda utanum gerð nýju heimasíðunnar. Til starfsins var ráðin Nejra Mesetovic sem útskrifaðist vorið 2017 sem ferðamálafræðingur frá HÍ og mun ráðningu hennar ljúka í ágúst nk. Um miðjan febrúar síðastliðinn opnaði Ríki Vatnajökuls svo nýja heimasíðu þar sem hægt er að bóka bæði afþreyingu og gistingu. Á bókunnarsíðunni er hægt að finna ýmsa afþreyingu allt frá jöklagöngum, snjósleðaferðum, íshellaferðum, ísklifri, jeppaferðum bæði á jökul og Lónsöræfi, staðarleiðsögn á Höfn, siglingum og kayakferðum á jökullónum svo eitthvað sé nefnt. Einnig er hægt að bóka ýmisskonar gistingu sem er í boði á svæðinu, en gistingin er enn sem komið er tengd gegnum booking.com. Þá er hægt að finna flesta veitingastaðina okkar og upplýsingar um þá, svo sem opnunartíma og staðsetningu. Mikið hefur verið lagt upp úr því að hagnýtar upplýsingar fyrir ferðamenn séu að finna á nýju heimasíðunni sem enn sem komið er eingöngu á ensku. Unnið er að því að setja sem mestar upplýsingar einnig á íslensku og vonir standa til að íslenski hluti síðunnar verði kominn í notkun í haust. Undir Practical Info geta þeir sem vinna við ferðaþjónustu á svæðinu fundið ýmsar gagnlegar upplýsingar og er það von okkar að sem flestir noti nýju síðuna þegar þeir þurfa að leita upplýsinga eða bóka afþreyingu og gistinu fyrir þá ferðamenn sem sækja okkur heim. Slóðin á heimasíðuna er: www.visitvatnajokull.is

Olga Ingólfsdóttir,
Ríki Vatnajökuls