Nordplus nemendaskiptaverkefni við Danmörku

0
1240
Jónshús

Erlend samskipti eru áherslupuntur í starfi FAS og Nýheima. Í vetur var unnið að Nordplus umsókn með Faarvejle Efterskole in Danmörku. Í byrjun maí fengum við að vita að umsóknin hefði verið samþykkt. Að sjálfsögðu mun þátttaka í verkefninu nýtast inn í nám nemenda í FAS. Búnir verða til tveir áfangar sem hvor um sig telur fimm einingar. Verkefnið kallast „Góður granni er gulli betri“.
Um er að ræða nemenda­skiptaverkefni sem stendur yfir næsta skólaár og er gert ráð fyrir allt að 25 þátttakendum í FAS. Fyrir áramót verður samskiptamálið danska og eftir áramótin verður unnið á ensku. Um mánaðarmótin október/nóvember fara nemendur FAS til Faarvelje og dvelja þar í viku hjá félögum sínum. Fyrir þá ferð munu nemendur undirbúa kynningar um land og þjóð annars vegar og svo um tengsl Danmerkur og Íslands hins vegar. Þessar kynningar fara fram á dönsku og einnig þurfa nemendur að nota dönskuna á meðan að þeir búa hjá gestafjölskyldum. Meðan á dvölinni ytra stendur verður unnið í hópaverkefnum og ýmsir staðir heimsóttir sem tengjast sögu Íslands.
Á vorönninni verður skipt um gír og unnið á ensku. Í sameiginlegri verkefnavinnu verður hugað að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem skoða á loftslagsbreytingar, sérstaklega áhrif fyrir hafið. Bæði mengun og súrnun sjávar verður tekin til athugunar og tengd við sjálfbæra þróun. Gert er ráð fyrir að Danirnir endurgjaldi heimsóknina í lok mars og dvelji hér í viku. Á meðan þeir dvelja hér verður unnið að alls kyns verkefnum og umhverfið skoðað. Líkt og svo oft áður verður gerð vefsíða fyrir verkefnið og helstu gögnum safnað þar saman.

Hjördís Skírnisdóttir

Nýhöfn
Nýhöfn