Næsti listamaður sem sýnir í Svavarssafni er Ásta Fanney Sigurðardóttir. Verk hennar eru ekki bara bundin við striga eða rými heldur vinnur hún frjálst með tóna, hljóð, orð og gjörninga í verkum sínum. Meðal verka í þeim anda eru verkin Lunar-10.13&Gáta Nórensu sem hún sýndi á listahátíð í Reykjavík, en Ásta Fanney hefur m.a. sýnt verk sín í Casino Luxembourg, Nóbelsafninu í Svíþjóð og Listasafni Reykjavíkur. Safnvörður spjallaði við Ástu fyrir Eystrahorn og bað hana að segja aðeins frá sýningunni; Næturútvarp.
Hvað er Næturútvarp?
„Næturútvarp er flöktandi ljós á þokubakka, melódía úr draumi sem hverfur um leið og þú vaknar, undirmeðvitund sem finnur á sér framtíðina, svefnganga á sandi. Sýningin er í raun óður til tónlistar og ljóss,“ segir listakonan. „Það má segja að ég sé að líma saman mismunandi listfög, bræða saman list og náttúru. Kannski af því ég geri myndlist, ljóð og tónlist þá er ég að reyna að tengja þetta allt saman. Tónlist er haldreipi, áminning og kveikja á meðan myndlistin er uppljómun og opnun, ljóð tengir hug við hjarta og heldur mér réttu megin við línuna. Og allt þetta gerir líka allt hitt, skilgreiningarnar eru vanalega bara þarna til rugla í þér. En þessi sýning er svo margt finnst mér, hún stiklar á ólíkum steinum. Þetta er líka óður til vináttu og lita og til náttúrunnar og alls þess sem er falið bakvið, þetta er tenging milli allra hluta. Ég og Svavar eru þarna að tala saman kannski, eða ég er að rugla eitthvað í honum.“
Eins konar abstrakt útvarp
,,Kveikjan að sýningunni var olíumálverk eftir Svavar Guðnason sem heitir Næturútvarp á Öræfajökli. Margrét Áskelsdóttir sýningarstjóri fór með mig á Listasafn Íslands til að sjá þetta verk og opna á samtal. Strax þegar við kynntumst verkinu betur kom kveikjan. Í miðju verki er lítill kassi, sem virðist jafnvel vera ómálaður, en þó er hann það ekki. Hann virkar á mig eins og hálfgyllt gat inn í málverkið. Á þessum fleti býr manneskjan, hún er í eilífu samtali við umhverfi sitt og horfir á öll form frá þessum eina punkti. Þessi kassi er líka hlið eða dyr til að komast baksviðs og sjá liti og ljós frá annarri hlið. Allt er sjónarhorn. Á sýningunni í Svavarssafni gengur áhorfandinn í raun inn í málverkið og form málverksins leika lausum hala, þau sameinast náttúrunni á einn eða annan hátt. „
Frænka þín er líka Bill Murray
Safnvörður reynir að ímynda sér þetta án þess að takast. Listakonan heldur áfram að lýsa verkinu:
„Þetta er líka marglaga af því að Næturútvarpið er líka eins konar nótt margra ólíkra drauma með skýrum eða óskýrum bilum á milli sín. Þannig horfi ég á þessi form, þau breytast og blandast saman í þessum næturdraumum og afbakast, fyrst kemur draumur þar sem mamma þín er líka frænka þín sem er líka Bill Murray og næsti draumur er lengri og einfaldari af fallegu úri á vinstri hönd.“
En hvað með tónlistina, skýtur safnvörður ákafur inn, hvernig kemur tónlistin inn í þetta allt?
,,Málverk Svavars, sem sýningin byggir öll á, var tileinkað tónskáldi sem var vinur Svavars, það var Jón Leifs. Og þegar ég fór að hugsa um þetta þá fannst mér við hæfi að útbúa einhvers konar næturútvarp. Ég varð mér því út um nótnablöð með verkum Jóns Leifs sem ég tengdi við kraft málverksins og þema sýningarinnar. Ég klippti form málverksins úr nótnablöðunum, svo úr urðu bútar mismunandi nótnaklippa. Ég fékk sellóleikarann og tónlistarkonuna Gyðu Valtýrs til liðs við mig til þess að spila þessar úrklippur, og þannig vorum við að hljóðgera málverkið. Úr urðu fallegar og undarlegar klippur sem óma í rýminu. Tónverkin eru þarna orðin eins konar abstrakt útvarp sem verið er að skipta um stöð, aftur og aftur en þú heyrir alltaf sama verkið bara öðruvísi, koma og fara, verkið líf og dauði, Vita et Mors. Þetta er í raun eins konar hljóðmálverk. Hljóðmálverkin sjóngeri ég síðan aftur í klassísku málverki og loka þar með hringnum á milli mín, Svavars, Jóns, náttúrunnar, tímans og draumsins“
Safnvörður hristir höfuðið enn áttavilltari en áður.
„Þá ómar í útvarpinu píanóverk sem er unnið útfrá tónverkinu Vökudraumar eftir Jón þar sem Ásthildur Ákadóttir fer á kostum í píanóleik. Það er ekki eins hættulega og glæpsamlega klippt út eins og hitt verkið en það er meira eins og þegar Svavar lýsir litum í málverki, eins og það eimi eftir af gömlu ævintýri. Þannig eimir eftir af tónverkinu í spunnu draumkenndu píanói sem leysir sig frá nótnablaðinu og fer sínar eigin leiðir. Eins og skuggi af vökunni blæði inn í svefninn, það sést í gegnum skilin, skil á milli svefns og vöku. Mér finnst þetta vera eins og þegar þú horfir inn í ísjaka eða jökul, þú getur séð lög og lög og lög af tíma, bláum tíma. Þetta er einmitt einn af þeim litum í sýningunni, þessi jökulblái litur sem er svo skær að hann glóir næstum, svefn og vaka sem glóir til skiptis.
Sýningin Næturútvarp opnar klukkan fjögur laugardaginn 28. október. Verið öll velkomin.