Mikilvægi menntunar í ferðaþjónustu til að auka verðmætasköpun í framtíðinni

0
852
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Þrátt fyrir að verulegur samdráttur ríki nú í ferðaþjónustu og að horfurnar séu neikvæðar til skamms tíma, er mikilvægt að sjá tækifæri í þeirri stöðu sem virðist við fyrstu sýn nokkuð vonlaus. Við í Austur-Skaftafellssýslu verðum að endurmeta styrkleika okkar og nýta möguleikana sem til staðar eru innan héraðsins sem leynist í náttúru svæðisins og fólkinu sem byggir samfélagið.
Náttúran talar sýnu máli þar sem hún er einstök, tækifærin sem okkur eru gefin ættu að felast í því að skapa fjölbreytt og spennandi störf í framtíðinni, sem munu laða að og festa í sessi hæfileikaríka einstaklinga sem auðga enn frekar samfélagið sem við búum í. Lykilatriðið í að efla hæfileikaríka einstaklinga er fræðsla og menntun eins og dæmin sanna í eldri undirstöðugreinum samfélagsins eins og landbúnaði og sjávarútvegi.
Jöklaleiðsögn er einn angi af þeim fjölbreyttu störfum sem þróast hafa undanfarin misseri, þar sem áhersla hefur verið lögð á aukið öryggi gesta þar sem oft er ferðast um tæknilega flókið landslag þar sem hættur leynast ef ekki er farið varlega.
Félag Fjallaleiðsögumanna hefur þróað röð námskeiða sem veita ýmiss konar réttindi til leiðsagnar á jöklum og fjöllum. Keilir hefur þróað leiðsögn í ævintýraferðamennsku í samstarfi við kanadískan háskóla og FAS bíður upp á Fjallamennskunám á framhaldsskólastigi.
Glacier Adventure vill taka þátt í að byggja upp menntun í samfélaginu og stuðla þannig að auknum möguleikum Hornfirðinga á öllum aldri sem vilja starfa við jöklaleiðsögn í framtíðinni. Nú í byrjun sumars mun félagið bjóða upp á námskeið sem veitir réttindi til að starfa við jöklaleiðsögn á skriðjökli. Þeir sem ljúka námskeiðinu með jákvæðri umsögn leiðbeinenda munu öðlast réttindi til að leiðsegja á jökli undir handleiðslu reyndari leiðsögumanna. Námskeiðið getur hentað mörgum eins og fyrir þá sem hafa starfað lengi að leiðsögn en vantar grunn í línuvinnu, fyrir þá sem hafa lokið fjallamenskunámi í FAS og einnig fyrir almennt útivistarfólk sem vill auka færni og þekkingu sína og ferðast á öruggann hátt í jöklalandslagi.
Á Hala þar sem Glacier Adventure er með aðstöðu fer fram kennsla innandyra, þar sem m.a verður farið yfir hvernig lesa eigi í veðurspár, hvernig á að klifra upp línur og setja upp tryggingar.
Öll verklega kennslan sem fer fram úti verður kennd á nálægum skriðjöklum, Breiðarmerkurjökli og á Falljökli, þar verður farið yfir tæknilega hluta námskeiðsins svo sem hvernig á að bera sig að við sprungubjörgun, grunntækni í ísklifri ásamt því hvernig best er að haga leiðarvali og samskipti við gesti ásamt mörgu öðru.
Ferðaþjónustan er stór atvinnugrein þar sem svo mörg afleidd störf skapast vegna þess umfangs sem greinin tekur til sín. Í framtíðinni munum við sjá hversu verðmæt greinin er samfélagi eins og okkar, þar sem tækifæri fyrir sérhæfð störf á öllum sviðum munu dafna og styrkja samfélagsgerðina okkar.
Verum bjartsýn á framtíðina.

Kærar kveðjur frá Glacier Adventure,
Haukur Ingi og Berglind.