Menningarhátíð í Nýheimum

0
818

Föstudaginn 12. mars var mikið um dýrðir hér í Sveitarfélaginu Hornafirði, en þá var haldin vegleg menningarhátíð Sveitarfélagsins í Nýheimum, þar voru afhentir styrkir og viðurkenningar sveitarfélagsins.
Alls voru 27 styrkir veittir, það voru styrkir menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundarnefndar, sem og styrkir úr atvinnu- og rannsóknarsjóði.
Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri setti hátíðina og kom fram í máli hennar mikilvægi þess að koma saman og fagna fjölbreyttri menningu, umhverfisvitund og frumkvöðlastarfi í sveitarfélaginu því menning er samofin samfélaginu og órjúfanlegur hluti þess

Menningarverðlaun fyrir árið 2021

Menningarverðlaun hafa verið veitt frá árinu 1994 og í ár voru fjórar tilnefningar til verðlaunanna. Fram kom í ræðu Kristjáns S. Guðnasonar formanns atvinnu- og menningarmálanefndar að hlutverk verðlauna er að veita hvatningu til handa listamönnum, fræðimönnum og áhrifavöldum fyrir verk sín. Það að vera tilnefndur er heiður og sönnun þess að verkin ykkar skipta okkur máli.
Ingvar Þórðarson hlaut Menningarverðlaun fyrir sitt ævistarf til menningarmála. Ingvar hefur verið einn af hornsteinum leiklistarlífs á Hornafirði. Hann hefur leikið í fjölda uppsetninga og verið einn af fremstu leikmyndasmiðum í gegnum árin. Einnig hefur hann setið í stjórn Leikfélags Hornafjarðar um árabil. Ingvar hefur leikið stór og smá hlutverk í gegnum árin og skilað sínu verki vel. 

Atvinnu- og rannsóknarsjóður

Bjarni Ólafur Stefánsson fulltrúi í Atvinnu- og menningarmálanefndar afhenti styrki atvinnu og rannsóknarsjóðs, fram kom í máli hans að í ár hafi nefndinni borist tólf metnaðarfullar umsóknir í sjóðinn. Hljóðaði heildarupphæð umsóknanna upp á rúmar tíu miljónir en alls voru 2.250 þúsund króna til úthlutunar.
Einnig tók Bjarni Ólafur fram að meginhlutverk sjóðsins væri: „Að efla byggð og atvinnu í Sveitarfélaginu Hornafirði og er sjóðnum ætlað að veita styrki til verkefna sem lúta að atvinnuþróun, rannsóknum og nýsköpun í Sveitarfélaginu Hornafirði.“
Í ár var áttahundruð þúsund úthlutað úr A-hluta og hlaut Glacier Adventure styrkinn að þessu sinni fyrir verkefnið „Sumarbúðir hjá Jökla- og fjallasetrinu á Hala” Verkefnið Sumarbúðir hjá Jökla- og fjallasetrinu á Hala er undirmarkmið í stærra verkefni sem Glacier Adventure ehf ásamt fl. standa fyrir og snýr að uppbyggingu á Jökla- og fjallasetri.
Úr B-hluta var úthlutað 1.450 þús. kr. Náttúrustofa Suðausturlands fyrir verkefnið  „Hve djúp eru jökullónin?“ 400 þúsund og Fuglaathugunarstöð Suðurlands fékk 250 þúsund kr. til verkefnisins “Helsingjar”. Nýheimar Þekkingarsetur hlaut styrk út B sjóði 400 þúsund í verkefnið „Staða og líðan ungra karlmanna í landsbyggðarsamfélagi“ og Þorvarður Árnason hlaut 150.000 króna styrk fyrir verkefnið „Litbrigði vetrarins ( Colours of Winter)“. Þorbergssetur hlaut 250.000 króna styrk fyrir verkefnið „Eymundur og Halldóra í Dilksnesi“

Umhverfisviðurkenningar

Finnur Smári Torfason, varaformaður umhverfis- og skipulagsnefndar veitti umhverfisviðurkenningar fyrir hönd nefndarinnar.
Tilgangur viðurkenninganna er að vekja íbúa sveitarfélagsins til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis á samfélagið og jafnframt að hvetja þá til að sýna náttúru og umhverfi tilhlýðilega virðingu.
Í ár voru veittar þrjár viðurkenningar. Í flokki einstaklinga fyrir snyrtilega lóð, fyrirtækja og stofnana og í flokki lögbýla.
Mörk að Höfðavegi 7, Sveinn Guðmundsson hlaut umhverfisviðurkenningu fyrir snyrtilegan og fjölbreyttan garð. Fyrir lögbýli Arnór Fjölnisson og Marie-Loise Johansson að Breiðabólsstað 5 Það minnir að örlítið á skandinavískan herragarð að koma að býlinu þeirra. Mjög skemmtilega skipulögð og snyrtileg lóð með fallegum blómum og trjám.
Fosshótel Jökulsárlón hlaut umhverfis­viðurkenningu í flokki fyrirtækja þar hefur hótelið undanfarin ár verið í fararbroddi í flokkun úrgangs og flokkar meðal annars allan lífrænan úrgang, pappír og bylgjupappa, plast, og dósir undan matvælum. Byggingin er að stórum hluta Svansvottuð og er vinna hafin við að umhverfisvotta hótelið í heild.
Skaftfellingar eru hvattir til að taka fyrrnefnda aðila til fyrirmyndar, umhverfi og samfélagi til góðs. Einnig eru íbúar hvattir til að senda inn tilnefningar til umhverfisviðurkenninga 2020 í hausts.

Styrkir nefnda og bæjarráðs

Alls bárust þrettán umsóknir um Menningarstyrki, og eru þeir veittir félagasamtökum og einstaklingum til menningartengdra verkefna. Fram kom í máli Hólmfríðar Bryndísar að með þessum styrkjum vilji nefndin hvetja og styrkja félagasamtök og einstaklinga til frekari starfa í þágu menningar.
Eftirtalin félagasamtök hlutu styrk að þessu sinni:
Blús- og rokkklúbbur Hornafjarðar, Gleðigjafar, Samkór Hornafjarðar, Karlakórinn Jökull, Kvennakór Hornafjarðar, Leikfélag Hornafjarðar, Lúðrasveit Hornafjarðar, Félag Harmonikkuunnenda, Sviðslistahópurinn Erató, Hilmar og fuglarnir/ Ekrubandið og Hlynur Pálmason.
Frá fræðslu- og tómstundanefnd fengu fjögur félagasamtök styrki en það voru: Hestamannafélagið Hornfirðingur, Klifurfélag Öræfinga, Umf. Sindri fimleikadeild og barnastarf Hafnarkirkju.
Bæjarráð veitti eftirtöldum styrki í ár. Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu, Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og 785 FHM efh, Eva Bjarnadóttir.
Athöfnin var hátíðleg að vanda. Björg Blöndal og Þorkell Ragnar fluttu vel valin lög í tilefni dagsins og hituðu upp fyrir blúshátíð sem haldin var um helgina.
Öllum styrk- og verðlaunahöfum er óskað til hamingju.