Menn uppskera eins og þeir sá

0
220

Undanfarið ár hefur svo sannarlega verið frábær uppskera af þessari vinnu, fjölgun iðkenda, landsliðsefni í öllum aldurshópum og árangur á landsvísu frábær. Í dag eru yngriflokka iðkendur hvorki meira né minna en 85 og teflir félagið fram einu eða fleiri liðum í öllum aldurshópum frá fyrsta til tíunda bekk. Metnaðurinn er mikill í krökkunum og sést það t.d. á því að í dag eigum við tvö lið í efsta styrkleika á Íslandi því 5. og 6. flokkur eru báðir komnir í A-flokk sem er algjörlega frábært í ekki fjölmennara samfélagi. Þegar starfið er jafn öflugt og raun ber vitni þá fylgja því að sjálfsögðu nokkrar rúsínur í pylsuendanum, því krakkarnir okkar eru á fullu að berja á dyr landsliðanna, og að þessu sinni eigum við Hornfirðingar hvorki meira né minna en tvo fulltrúa þar, þá Birgi Leó Halldórsson og Hilmar Óla Jóhannsson. Birgir er kominn í hóp hjá U-18 ára og Hilmar er kominn í hóp U-15. Fjölgun iðkenda, árangur liðanna og frábær árangur einstakra iðkenda innan félagsins er okkur í Körfuknattleiksdeild Sindra svo sannarlega mikið gleðiefni og við erum virkilega stolt af öllum krökkunum. Körfuknattleiksdeildin þakkar styrktaraðilum fyrir stuðninginn og öllum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrir stuðninginn og þann skilning sem allir eru að sýna okkur í starfinu, það er ekki sjálfgefið að fá bros þegar maður bankar og betlar í heimahúsum og um það erum við meðvituð.

Takk kærlega Hornfirðingar og áfram körfubolti