Með listagallerí heima hjá sér

0
1346
Tim og Lind við verk Hlyns Hallssonar á sýningunni Núna eða aldrei - Jetzt oder nie - Now or never

Hjónin Lind Völundardóttir og Tim Junge fluttu til Hornafjarðar árið 2018, Tim lauk námi við Konunglegu akademíuna í Den Haag og eftir námið vann hann með hópi listamanna og stofnuðu þeir B141 sem er vinnustofurými fyrir listamenn og nokkru seinna stofnuðu þeir einnig Quartair contemporary arts iniatives. Megintilgangur Quartair var að stuðla að menningarlegum skiptiverkefnum við norðurlöndin til að byrja með. Quartair og B141 er enn starfandi í dag. Fjöldi listamanna og hópa alls staðar að úr heiminum hafa sýnt þar. Einnig starfaði Tim í rúman áratug sem grafískur hönnuður í Hollandi. Í dag vinnur Tim hjá Byggðasafni Hornafjarðar og hjá 45B sem er lítil auglýsingastofa sem við rekum ásamt því að bera út póstinn á Höfn.
Lind er útskrifuð með sveinspróf í kjólasaumi frá Iðnskólanum í Reykjavík og síðar nam hún við Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Eftir það útskrifaðist hún úr framhaldsnámi í myndlist og hönnun, frá St. Joost í Breda í suður Hollandi. Í Hollandi vann hún fyrir leikhús, Joop van den Ende stage entertainment og í 10 ár fyrir NDT Nederlands Dans Theater. Hún var allan tímann að baksa í sinni myndlist og halda sýningar hér heima og erlendis, en hefur síðustu 10 árin ekki verið virk í sýningarhaldi. Lind útskrifaðist síðar með MA í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og M.Ed. í kennslufræðum frá Háskóla Íslands og hefur frá þeim tíma einbeitt sér að verkefnastjórnun listverkefna og kennslu. Hún stofnaði og rekur hlutafélagið art365 með Perlu Torfadóttur. En art365 ehf. stendur að útgáfu íslenska listadagatalsins.
Frá 2013 hefur art365 gefið út íslenska listdagatalið List í 365 daga, sem er frekar stórt að umfangi eða 365 listamenn, 370 blaðsíður og fær hver listaverk/listamaður eina síðu. Skemmtileg staðreynd um dagatalið er að það er 28 cm x 33,5 cm og 4,5 cm á þykkt og vegur tvö og hálft kíló. Eystrahorn hafði samband við þessi listelsku hjón til að fræðast aðeins um það sem þau eru að brasa þessa dagana.

Hvaðan kom hugmyndin að List í 365 daga og hvernig hefur verkefnið þróast ?

“Hugmyndin þróaðis út frá „tear off calendar“ og annarskonar lista dagatölum. Tim hannaði útlitið en stærsta verkefnið í byrjun var að útskýra verkefnið fyrir fólki og fá 365 listamenn til liðs við okkur. Fyrsta dagatalið kom út 2014. Vonandi getum við haldið þessu áfram en þetta er mikil vinna sem við höfum unnið í sjálfboða vinnu ef svo má segja. Dagatalið hefur staðið undir kostnaði við prentun og pappír. Það væri gaman að geta haldið áfram að gefa þetta út á hverju ári, en til þess þá þurfum við að fá einhvers konar styrk. 2015 bættum við upphengjum við hönnunina og höfum nú hannað kassa og klemmur þar sem hægt er að setja dagatalið saman í lok árs og geyma það sem bók. En í ár kemur dagatalið ekki út í eiginlegri mynd.”
Þau hafa einnig sett af stað verkefnið MUUR á heimili sínu hér á Höfn. MUUR er sýningarrými, um það bil einn og hálfur veggur þar sem meiningin er að bjóða listamönnum hingað á Höfn til að halda þar sýningar með 2-3 mánaða millibili. Listamenn sem annars ættu ekki leið með verk sín á Höfn.

Frá sýningunni List í 365 daga, sem er í Listasafni Reykjanesbæjar. Mynd: Dagur Jóhannsson

Afhverju fóru þið af stað með MUUR ?

“Síðan við fluttum til Hafnar þá hefur okkur langað að skapa rými fyrir list og umræður um um hana. Heima galllerí eru velþekkt í Evrópu og víðar um heim. Okkur fannst að með því að opna okkar dyr með þessum hætti þá væri hægt að koma mörgu til leiðar í einu, sýna samtíma list og bjóða fólki heim í samræður um listir og fleira. MUUR þýðir VEGGUR á hollensku.
Núna er sýningu Hlyns Hallssonar, Núna eða aldrei – Jetzt oder nie – Now or never, að ljúka og við erum að gera klárt fyrir opnun Sólveigar Aðalsteinsdóttur, en sú sýning opnar 2. janúar. Vonandi getum við opnað dyrnar upp á gátt þann dag og tekið á móti sem flestum.”

Hvað er á döfinni hjá ykkur á næstunni ?

“Við erum að byrja að vinna undirbúnings vinnu að verkefni sem við köllum Gola eða Breeze. Hugmynd verkefnisins er að tengja saman fyrirtæki og listamenn, bæði íslenska og erlenda í nokkurskonar listahátíð sumarlangt með útilistaverkum. Til að hefja þessa undirbúnings vinnu fengum við styrk frá Uppbyggingasjóði Suðurlands.
Einnig erum við með aðra hugmynd í farvatninu sem heitir Slóð 99, en það verkefni snýr að raftónlist og hljóð- og vídeó list.”
Lind og Tim vekja athygli á að nú stendur yfir sýning á verkum allra þeirra listamanna sem tóku þátt í verkefninu List í 365 daga 2020 með þeim en sýningin er í Listasafni Reykjanesbæjar og stendur til 22. desember.