Matarbíll Evu er á vegum Evu Laufeyjar og Stöðvar 2. Matarbílinn ferðast um landið með það markmið að kynnast nýsköpun í matargerð og útbúa samlokur á hverjum stað úr því hráefni sem þau kynnast í ferðinni. Markmiðið er að búa til matarhátíð á hverjum stað og bjóða samlokur með staðbundnu hráefni. Þau fá til liðs við sig veitingaaðila af svæðinu til að taka þátt í hátíðinni og einnig kynna þau sér starfsemi afþreyingaraðila og gististaða á ferð sinni um landið.
Eva Laufey byrjaði ferðina sína í Hornafirði með bátsferð á Jökulsárlóni og gisti eina nótt á Hótel Smyrlabjörgum og seinni nóttina á Hótel Brunnhól þar sem að hún kynnti sér einnig ísgerðina þar. Svo var efnt til hátíðar á miðsvæðinu í hádeginu þriðjudaginn 16. júní.
Eva Laufey, í samstarfi með Íshúsinu Pizzeria, þróaði svo humarsamlokuna sem var í boði á svæðinu og fékk hún einróma lof allra sem smökkuðu. Þá var Kaffi Hornið einnig á svæðinu með humarsúpuna sína góðu, Hótel Höfn með sushi og humarpizzur og Brunnhóll með jöklaís. Upphaflega átti matarhátíðin að vera á mánudagskvöld, en vegna veðurs var ákveðið að halda hana fremur í hádeginu á þriðjudeginum. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd lék blíðan við gestina sem náðu að sóla sig í langri biðröðinni eftir humarloku.
Matarhátíðin fékk frábærar viðtökur og mættu um 300 manns og eru allir sammála að gaman væri að efna til fleiri sameiginlegra viðburða fyrir heimamenn og gesti yfir sumartímann.