Mannætur á bókasafninu

0
346

Í bókasafni Hornafjarðar má sjá skondnar og sérkennilegar myndir af tröllskessum sem stunda mannát. Myndskreytir er Sunneva Guðrún Þórðardóttir, en hún var fengin til verksins af þjóðfræðingnum Dagrúnu Ósk Jónsdóttur. Dagrún hefur alltaf haft áhuga á þjóðsögum og skrifaði BA ritgerð um mannát í þeim. „Tröllasögur eru svo áhugaverðar því í þeim speglast allskonar átök, til dæmis milli þess kristna og heiðna, en tröllin eru í sögunum rammheiðin, og svo milli karla og kvenna. Í tröllasögunum eru það t.d. yfirleitt tröllskessur sem eru að reyna að éta mennska karlmenn,“ segir hún.
Aðspurð um hvort hún eigi einhverjar skessur í uppáhaldi játar hún að sú fyrsta sem kemur í hugann er Grýla, en hún er bæði frægasta tröllskessa landsins og frægasta mannætan. „Svo verð ég að nefna tröllskessuna Þjóðbrók, en við erum báðar af Ströndum.“
En hvað með suðausturland? Eru skessur hér?
„Já, það eru tröllasögur um allt land,“ svarar Dagrún. „. Þarna á svæðinu er auðvitað skessan Klukka, sem sögur segja að hafa átt ellefu dætur. Svo hef ég svolítið gaman að sögunni um Ólaf, eða Trölla-Láfa sem tvær tröllskessur tóku með sér upp í fjall og hugsuðu sér gott til glóðarinnar að fá nota hann til að viðhalda stofninum. Það leist Láfa illa á og brá á það ráð að þykjast verða veikur og sagði skessunum að ekkert gæti læknað hann nema 12 ára gamall hákarl. Þegar þær fóru að sækja hákarlinn, hljóp hann aftur til byggða og slapp þannig úr prísundinni.“
Það er greinilegt að tröllastofninn er viðkvæmur stofn, og mögulega verkefni fyrir Náttúrufræðistofu og Vatnajökulsþjóðgarð að reyna að bjarga honum með einhverjum hætti. Er eitthvað hægt að gera fyrst að tröllkarlar eru að deyja út?
„Tröllaríkið hefur alltaf verið svolítið kvennaveldi. Eftir að tröllkarlarnir fóru í stórum stíl að verða að steini, þegar þeir fóru ekki nógu varlega í dagsbirtu, reyndu skessur, eins og þessi í sögunni um Trölla-Láfa að bjarga kynstofninum en það virðist ekki hafa gengið að óskum, þar sem mennsku körlunum tekst yfirleitt að leika á skessurnar og koma sér undan.“
Þar hafið þið það, miðað við orð Dagrúnar eiga skessurnar ekki mikla von um að bjarga stofninum. En það er hægt að lesa sig til um tröll og njóta myndanna hennar Sunnevu í bókasafninu fram á næsta ár.