Málfríður malar, 7.september

0
1322

Hellú hellú

Nú var ég að hrósa nýju fínu áttavitunum hér um daginn, sem fékk mig til að virða fyrir mér upplýsingaskilti sveitarfélagsins svona almennt með augum ferðafólks. Ég verð nú bara að segja að þar er hægt að gera mun betur. Fyrsta skiltið inn í bæinn, sem á að leiðbeina gestum hingað og upplýsa þá um hitt og þetta sem við höfum uppá að bjóða er hreinlega ónýtt. Myndin sem einhvern tímann var þar eflaust mjög fín er svo veðurbarin að það varla sést í hana lengur. Þar að auki er þýska þýðingin hreinlega röng, “Velkomin til hafnarinnar” segjum við þýskumælandi gestum okkar, er ekki lágmark að hafa þetta rétt ef við ætlum að skreyta okkur með erlendum tungumálum? Svona hefur þetta staðið í fleiri fleiri ár! Fyrst við erum nú byrjuð á að bæta við nýjum upplýsingaskiltum er þá ekki lágmark að byrja á að uppfæra það sem fyrir er? Nei ég bara spyr, ef hliðið að húsinu mínu skemmist, þá laga ég það, (eða fæ einhvern til þess) eða sinni einfaldlega reglulegu viðhaldi svo hlutir skemmist ekki og verða ljótir. Hér sjáið þið mynd af skiltinu, þetta er auðvitað bara hrikalega ólekkert er það ekki?


En nú er nóg komið af rausinu í mér. Það er búið að vera sérlega skemmtilegt að deila með ykkur hugleiðingum mínum um allt og ekki neitt. Nú er ég bara búin að tæma tankinn og veturinn er líka að ganga í garð og veðrið að kólna, sem þýðir að frúin þarf að flýja land og finna sólina. Ég verð því ekki á svæðinu til þess að fylgjast með. Ég vona að þessir pistlar mínir hafi verið örlítið gagnlegir en fyrst og fremst skemmtilegir. Takk fyrir samfylgdina og lesturinn. Þangað til næst, sendi ég ykkur síðustu kveðjuna svo ég geti farið að skipuleggja erótíska kokteila og strandlífið sem fram undan er.

Tútilídú – I love you….
Málfríður.