Málfríður malar, 31. ágúst

0
1294

Í dag ætla ég að kvarta örlítið varðandi vissan hóp opinberra starfsmanna, og annarra. Vitanlega eru ekki allir sem eiga skilið þetta tuð mitt en þeir sem eiga það skilið, virkilega takið það til ykkar og breytið hegðun ykkar. Hópurinn sem um ræðir eru þeir sem til dæmis keyra fyrir félagsþjónustuna á Höfn. Eins og flestir vita þá eru hér merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða einstaklinga við hinar ýmsu stofnanir. Starfsmenn félagsþjónustunnar þurfa vissulega að koma hreyfihömluðum skjólstæðingum í þessar stofnanir líkt og verslun og aðra opinbera staði. Þá er það sjálfsagt að þeir leggi í þessi fáu merktu P stæði þegar þeir sannarlega eiga ferð um með skjólstæðinga sína. En, því miður vill það oft brenna við að þegar starfsmenn eru komnir í þessar merktu bifreiðar að þeir telji að þeir geti lagt í P stæðin þegar þeim hentar. Sérmerktu P stæðin eru ekki fyrir fullfríska einstaklinga þó þeir séu á merktum þjónustubíl! Stæðin eru ekki fyrir þá einstaklinga sem telja sig fá skjótari afgreiðslu í Nettó því þeir lögðu í P stæðið við innganginn. Hugsið út í það fólk sem kemur rétt á eftir ykkur og þarf að leggja í þessi stæði vegna hreyfihömlunar sinnar. Þau komast ekki að, því fullfrískir einstaklingar eru að spara sér sporin til að ná sér í t.a.m. orkudrykki eða nasl fyrir sjálfan sig í Nettó. Ég vil því biðja ykkur kæru starfsmenn félagsþjónustunnar um að hugsa til þeirra sem þessi stæði eru merkt fyrir og að þið virðið það þó þið séuð á merktum bíl. Eins og fyrr segir þá eru það ekki allir sem haga sér eins kjánar og kannski vita þeir ekki betur. Þá þarf að upplýsa fólk að þetta gerum við ekki. Batnandi mönnum er best að lifa. Til að lifa í sátt og samlyndi við mann og annan í samfélaginu þurfa mannleg samskipti að vera góð.
Málfríður