Málfríður malar, 24. ágúst

0
1248

Mikið óskaplega er ég orðin þreytt á öllum þessum ferðamönnum sem heimsækja okkar fallega sveitarfélag. Mér er farið að líða eins og mér sé ofaukið hér. Að reyna að komast í apótek, til læknis, með bílinn í tékk á verkstæði og í einu verslunina á staðnum til að ná mér í mat er orðið frekar erfitt. Hvert sem litið er, þar eru gestir. Matsölustaðir og sjoppur eru ekki undanskyldar. Hvað er að frétta af nýju matvöruversluninni sem búin er að vera í umræðunni í sveitarfélaginu? Hvenær á að fara að gera eitthvað til að auka eða bæta við þjónustu/verslun hér á Höfn? Til að gera lífið hér bærilegra fyrir mig og aðra heimamenn sem er eins innanbrjóst og mér þá eru hér áhugaverðar hugmyndir/lausnir:

Við setjum upp ferðamannaeftirlit við fyrrverandi pípuhlið! Stoppum þar allra ferðamenn og forvitnumst hvað þeir ætla að gera hér á Höfn, hvað þeir hafa hugsað sér að versla í Nettó, hvar þeir ætla að borða o.s.fr. Þeim er svo tilkynnt að þeir geti sótt vörurnar sínar í Nettó eftir 2 daga því það tekur minnst 1 dag að flytja þær frá Rvk. Með þessu móti tæmist verslunin ekki og það verður ekki allsherjar kraðak þar af fólki sem þvælist um fyrir manni.

Við tökum aftur upp skömmtunarseðla eins og var hér í denn. 1 mjólkurpottur á dag, 500 gr. skyr, 900 gr. kjúklingarbringur o.s.fr. Með þessu móti fá allir eitthvað að borða og ég trúi ekki öðru en að skömmtun valdi því að matarsóun minnkar um 70% að minnsta kosti.

Að öllu gamni slepptu þá þarf eitthvað að gerast hér varðandi verslun og þjónustu ef við ætlum að taka á móti öllum þessum ferðamönnum. Ekki má svo gleyma okkur heimamönnunum í öllum þeim fjölda ferðamanna sem hér kemur í stutta heimsókn – við erum lífæðin í sveitarfélaginu og eigum rétt á fullri og helst óskertri þjónustu í bænum sem við elskum, dáum og búum í…. og greiðum álögur okkar til.

Málfríður