Málfríður malar. 11 maí

0
133

Nú er mér ekki til setunnar boðið deginum lengur. Um kvöldmatarleitið í gær þá sat ég við eldhúsborð hér í sveitarfélaginu (frekar smart eldhúsborð, svona óvalt gert úr alvöru niðursöguðu útlensku tré ) og það var ekkert á boðstólum EKKERT! Húsfreyjan hafði farið í Nettó en komið að tómum kofanum – ekki það að búðin hafi verið lokuð og engin manneskja á stjái neeeeei það var enginn matur í búðinni eða í það minnsta mjög lítill matur. Það er nefnilega fullt af einhverju fólki sem leggur það í vana sinn að koma hingað á Höfn sérstaklega til að versla frá okkur allan mat og við neyðumst því mjög oft til að taka mat úr frystinum þegar heim er komið! Huh hver borðar frosinn mat, ég bara spyr?? Ég veit ekkert deginum áður en ég fer í búð að ég þurfi að taka úr frystinum því það er ekki til matur þegar ég mæti í búðina. Varðandi uppsetningu í versluninni hver er eiginlega skipulagsstjóri?? Tannburstar hjá barnamatnum, blóm, mold og kristalvörur eða eldhúsáhöld í kjötkælinum! Ekki nóg með það heldur er allt yfirfullt af ljótum plastdöllum um öll gólf og jafnvel ofaní pulsukælinum þegar það rignir. Þetta er eitthvað svo Ó smart og deprimerandi ástand. Það væri hægt að bæta ásýndina með því að setja frekar fallega blómavasa með afskornum blómum í stað þessara ljótu plastdalla, sérstaklega þar sem blómin og vasarnir eru þarna hvort sem er, yrði bara mun smartara heldur en dallarnir. Síðan þarf bara að innleiða svona kerfi eins og þegar ég fæ tilkynningu í símann um einhver tilboð í búðinni. Plíiiing – Í dag 10. maí þarftu að taka úr frystinum mat því á morgun þegar þú kemur í búð þá verður allt uppselt!! Ég væri til í svona skilaboð, er ekki hægt að taka þessa hugmynd til skoðunar? Ekki sjá skilaboðin einungis til þess að ég á þiðinn mat daginn eftir (og þarf ekki að borða hann frosinn), heldur bjarga þau einnig umhverfinu ef ég get sleppt því að keyra í búðina með tilheyrandi eiturgufum úr afturendanum á bílnum er það ekki? Með því að fá skilaboðin búðin tóm og þú þarft ekki að keyra í dag í búðina þá björgum við í það minnsta einhverjum lífverum frá bráðum dauða OG jafnvel hægist eitthvað á bráðnun jökla. Er þetta ekki dálítið smart hugmynd??

 Málfríður