Málfríður malar, 17. ágúst

0
1210

Í dag ætla ég að hrósa, mér finnst svo dásamlegt þegar samfélagið tekur höndum saman og gerir bæinn okkar fallegri í dag en í gær. Í dag tók ég eftir frábærri viðbót, en það var þessi áttaviti eða hvað ég á að kalla þetta. Ég sá mjög fljótlega að þetta hafi verið sett upp til að vísa okkur leið í rétta átt eða til að koma í veg fyrir að við færum í vitlausa átt. Þetta virðist hafa verið sett upp í það minnsta á tveimur stöðum sem ég sá. Vitanlega reyndi ég að lesa á alla armana, en það var hreinlega ekki hægt að keyra á 50 km hraða og reyna að lesa á þetta. Fyrst keyrði ég þrisvar sinnum framhjá áttavitanum á Hafnarbrautinni við ráðhúsið. Ég varð hreinlegu engu nær því ég gat ekki lesið á skiltin nema pósthús eða það er í það minnsta það sem ég man eftir að hafa lesið. Fyrst mér tókst þetta ekki þá var ég orðin virkilega forvitin eins og Suðursveitungur þannig að ég keyrði framhjá á 30 km hraða til að athuga hvort ég gæti frekar lesið á alla armana. Þá var svo mikil ferðamanna umferð að ég varð að keyra í nokkra hringi niður á bryggju áður en mér tókst að keyra aftur framhjá á 30. Þá var ég vitlausu megin við áttavitann og gat ekkert lesið yfir götuna þannig að ég reyndi enn eina ferðina að komast að áttavitanum rólega. Ég lullaði fram hjá og las á alla armana og BÆNG. Haldiði ekki að ég hafi keyrt aftan á bíl því ég gleymdi hreinlega að horfa fram fyrir mig á götunni, úps. En það gerðist svo sem ekkert nema stuðaranir kysstust aðeins og ekkert brotnaði. En ég lærði á þessu að ég vissi alveg í hvaða átt ég ætti að fara þegar ég vildi fara um bæinn og þarf því ekkert að lesa mér til. Þessir áttavitar eru fyrir fólk sem rata ekki um bæinn og þeir eru eingöngu settir upp fyrir gangandi vegfarendur því það er ekkert nema sóun á eldsneyti ef fólk þarf að keyra oft framhjá til að lesa á armana og helst þyrfti að vera með kíki því stafirnir eru svo litlir.

Málfríður