Málfríður malar, 10. ágúst

0
1233

Loksins er Eystrahorn komið úr sumarfríi! Ég er nefnilega búin að bíða eftir því að koma skoðunum mínum og annarra þegna Sveitarfélagsins Hornafjarðar á framfæri. Það sem hefur legið á fólki þetta sumarið eru listaverk og gjörningar. Númer eitt: ,,Listaverkið” a.k.a. tjóðruð mislit fiskikör á túninu við Nettó. Það má segja að 99,7% bæjarbúa hafi ekki haft grænan grun að hér væri um ,,Listaverk” að ræða því þessir íbúar ályktuðu að hér væri á ferð einhver æfingaþraut á vegum Humarhátíðarnefndar því karastæðan reis um svipað leyti og Humarhátíð gekk í garð. En nei, það kom í ljós á mbl.is að hér væri um að ræða listaverk þegar íbúar sveitarfélagsins voru sakaðir um stuld þess og samkvæmt fréttinni átti verknaðurinn hafa gerst í skjóli nætur. Þessar opinberu ásakanir í garð heimamanna kölluðu á ýmis viðbrögð en mörg okkar urðu reið og sár á meðan aðrir gátu hlegið að vitleysunni. Við getum þó glaðst yfir því að Sveitarfélagið fékk auglýsingu og umfjöllun vegna fréttarinnar um horfna listaverkið og enginn slasaðist því það var tekið niður áður en það olli vandræðum. Númer tvö: ,,Gjörningur” á miðjum frisbí – golfvelli í Hrossabithaga. Hvað er eiginlega í gangi þar? Þessi gjörningur er ALLS ekki fyndinn og er hann vonandi ekki á launaskrá hjá útsvarsgreiðendum. List á fullkomlega rétt á sér í allskonar formi og hugmyndin að minnast Ásgríms Jónssonar sem málaði hér fyrir rúmri öld síðan er aldeilis ágæt. En að planta tjaldi með misgóðri umgengni á miðjum útivistar/íþróttavelli er vanvirðing bæði við ferðamenn og heimamenn sem vilja nýta sér völlinn á góðviðrisdögum. Það mætti kannski kalla þetta skítlegt eðli listarinnar?

Málfríður