Lónsöræfaferð 10. bekkinga

0
299
Nemendur í 10.bekk ásamt Berglindi Steinþórsdóttur kennara

Mánudaginn 12. september lagði 10. bekkur í Grunnskóla Hornafjarðar af stað í námsferð upp í Lónsöræfi. Farið var á fjórum bílum og nemendur ásamt fararstjórum skilin eftir uppi á Illakambi. Hver nemandi var með stóran bakpoka sem innihélt meðal annars nesti, hlýjan og léttan útifatnað, föt til skiptanna og allskonar hreinlætisáhöld. Einnig var öllum sameiginlega matnum skipt niður í alla bakpokana áður en farið var af stað í gönguna niður að Múlaskála.
Þegar þangað var komið þurfti hópurinn að venjast því fyrst og fremst að vera ekki með neitt símasamband. Allir komu sér þó vel fyrir á meðan grillaðar voru pylsur í hádegismat. Eftir það var farið í fyrstu gönguferðina þar sem gengið var upp Víðibrekkusker og voru allir hressir í göngunni. Þó fannst öllum gott þegar henni lauk og allir voru þá orðnir þreyttir og svangir. Næsta morgun vaknaði hópurinn eldsnemma og lagði af stað í seinni gönguna. Þá var gengið upp að Tröllakrókum sem eru algjört ,,konfekt fyrir augun” að sögn Jóns Braga sem var leiðsögumaður í ferðinni. Að því loknu var gengið að Víðidal og hlustað á sögur um byggðina þar. Næst var ferðinni heitið aftur niður í skálann og hópurinn rétt slapp við rigningu á leiðinni.
Um kvöldið var grillað lambakjöt, kveiktur varðeldur, sagðar draugasögur og varúlfaspilið var spilað óspart. Síðan fóru allir að sofa, þreyttir og sáttir eftir daginn. Næsta morgun var dótinu pakkað saman og gengið aftur upp Illakamb. Margir segja að sú ganga hafi tekið mest á hópinn, enda er gangan bara upp á við og frekar brött. Þegar bílarnir mættu voru nemendur tilbúnir og spenntir að komast heim. Margir biðu eftirvæntingafullir eftir að komast aftur í símasamband.
Skóladagana eftir ferðina vann hópurinn í verkefnum tengdum ferðinni og þar á meðal voru verkefni eins og kynningarmyndbönd og vefsíður.
Allir í hópunum voru mjög sáttir eftir ferðina og mæla eindregið með því að fólk njóti náttúrunnar og fari þessa gönguleið. Hópurinn vill einnig benda sem flestum á að horfa á þátt á sjónvarpsstöðinni N4 þar sem tekin voru viðtöl við Berglindi kennara ásamt nemendum sem tóku þátt í ferðinni.

Fyrir hönd 10. bekkjar,
Elín Ósk og Karen Hulda