Loksins kemur 14. maí

0
594

Þann 14. maí lýkur loksins einu erfiðasta kjörtímabili, meirihluta, í seinni tíð í Sveitarfélaginu Hornafirði. Tímabil átaka, kærumála og sundrungar. 14. maí næstkomandi munum við enda þetta átakatímabil og ganga til kosninga, kosninga sem vonandi munu snúast um framtíðarsýn og breytingar.

Íþróttamannvirki og efndir

Í fundargerð bæjarstjórnar (262) þann 9. 5. 2019 segir. „Við stofnun starfshópsins var kallað eftir því að fá fram niðurstöðu um forgangsröðun í framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja. Niðurstaða hópsins var í þessari forgangsröðun: 1. Að byggður verði stór fjölnota íþróttasalur með búningsaðstöðu, sturtum og salernum.“ Sléttu ári fyrr 9.5.2018 skrifar Björgvin Óskar Sigurjónsson þáverandi og núverandi frambjóðandi Framsóknar grein í Eystrahorn og segir orðrétt: „Meðal þeirra(framkvæmda) er t.d. nýtt íþróttahús, framtíðarhúsnæði fyrir líkamsræktarstöð……og nýja áhorfendastúku fyrir knattspyrnuvöllinn. Er jafnvel hægt að leysa flestar þessar framkvæmdir með einni nýrri byggingu? Þá losnar líka um gamla íþróttahúsið sem gæti nýst fyrir t.d. líkamsrækt…“ Mig langar mest að bjóða þetta fólk velkomið í Sjálfstæðisflokkinn því þarna segja þau berum orðum það sem við erum nú að berjast fyrir, ótrúlegt en satt, þá stendur þetta sama fólk nú í vegi fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja á Hornafirði, hvað breyttist? Uppbygging íþróttamannvirkja er eitt af stærri málunum fyrir komandi kosningar, enda er hér um gríðarlega mikilvægt mál að ræða fyrir svo marga hópa í samfélaginu. Börn og unglinga, afreksfólk, eldri borgara og fatlaða, Uppbygging íþróttamannvirkja mun hafa gríðarleg áhrif á samfélagið okkar og er risa póstur í að efla framhaldsskólann okkar svo dæmi sé tekið. Ef vel tekst til við uppbygginguna þá er það trú mín að til yrði nýr og eiginlegur miðbær á íþróttasvæðinu, þar sem yrði iðandi mannlíf bæði í íþróttahúsinu sem og á gervigrasinu fyrir utan. Miðbær sem við öll gætum sameinast um. En til þess að þessi draumur svo margra verði að veruleika þá þurfum við að fá inn fólk með hugsjónir og brennandi hungur fyrir íþróttum og tómstundum margskonar. Við þurfum fólk sem raunverulega finnur leiðir og lætur hlutina raungerast. Við sjálfstæðismenn munum ekki horfa í baksýnisspegil núverandi meirihluta, við viljum horfa til framtíðar, við viljum jákvætt samfélag þar sem okkar frábæri mannauður fær að njóta sín í ljúfum vangadans við lýðræðið, að Sveitarfélagið Hornafjörður þjónusti íbúana og hlusti á þeirra skoðanir. 14. maí er dagurinn þar sem þú getur haft áhrif.

Björgvin Hlíðar Erlendsson
4.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
Hornafjörður fyrir alla. X D