Nýafstöðnu tímabili í körfunni var fagnað s.l. föstudag og hittust þá leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og sjálfboðaliðar og gerðu sér dagamun á Ottó veitingahúsi.
Tímabilið hefur verið eins og árið allt, undarlegt og krefjandi en á sama tíma reyndist það körfunni mjög gott. Í fyrsta skipti í sögunni, á Höfn eitt af 15 bestu körfuknattleiksliðum landsins og því ber að fagna. Liðið hafnaði í 3. sæti fyrstu deildar karla, en því miður gerðu meiðsli, bönn og veikindi það að verkum að Dominos draumurinn dó snemma í úrslitakeppninni og 1-2 tap fyrir Selfossi í 8 liða úrslitum staðreynd.
Á uppskeruhátíðinni voru veitt fern verðlaun. Mikilvægasti leikmaður tímabilsins var Gerald Robinsson. Hann stóð sig frábærlega fyrir okkur allt tímabilið og var leiðtogi og aldursforseti liðsins. Það var mikill happafengur að fá Gerald hingað austur og gerði hann virkilega vel fyrir liðið bæði í sókn og vörn. Varnarmaður ársins var fyrirliðinn og gæðingurinn Gísli Þórarinn Hallsson. Gísli sýndi hvað í honum býr í vetur og mætti ávallt tilbúinn til leiks. Gísli er ill viðráðanlegur í kringum körfuna og getur spilað vörn á þunga miðherja eða minni framherja. Gísli var duglegur að draga ruðninga í allan vetur og hefur sennilega náð að halda uppi meðaltali uppá einn í leik hið minnsta. Haris Genjac fékk liðsfélagi ársins. Haris kom til okkar á seinnihluta tímabilsins og átti gott tímabil og steig upp í síðustu leikjunum og var stöðugur með sínar tvöföldu tvennur. Hann er hvers manns hugljúfi og einstaklega þægilegur og vel gerður drengur sem við munum vonandi sjá áfram á götum Hafnar í framtíðinni.
Það var svo hinn bráðefnilegi fyrirliðasonur, Erlendur Björgvinsson sem fékk verðlaun fyrir mestu framfarir. Erlendur tók gríðarlegum framförum í vetur og má segja að hann hafi bætt sig á öllum sviðum leiksins, sama hvort horft er til hans sem einstaklings eða liðsmanns. Þá ber einnig að nefna að Erlendur var valinn í U15 ára landslið Íslands í vetur og ljóst að ef hann heldur rétt á spöðunum munum við sjá þennan unga dreng vera miklu meira en föðurbetrungur í framtíðinni.
Þjálfarinn okkar, Pedro Rosado Garcia, stóð sig frábærlega í ár og var mikill fengur. Fagmaður fram í fingurgóma. Hann var ávallt að leita leiða til að gera félagið og starfið faglegra og liðið betra. Vann án afláts, vel liðinn af leikmönnum og gríðarlega vel að sér í leiknum enda lét árangurinn ekki á sér standa. Það er því mikil eftirsjá af honum en hann heldur á vit nýrra ævintýra í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og óskum við honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
En Pedro er ekki sá eini sem stígur til hliðar að loknu þessu tímabili. Hjálmar Jens Sigurðsson, formaður, sagði af sér formennsku á síðasta aðalfundi félagsins og við keflinu tók Elías Tjörvi Halldórsson. Hjálmar hafði starfað sleitulaust innan deildarinnar frá árinu 2008 en tók við formennsku á árinu 2011 og hefur því setið í 10 ár! Geri aðrir betur! Hjálmar mun þó ekki stíga alveg til hliðar, heldur mun hann áfram vinna við yngri flokkastarf félagsins og láta gott af sér leiða þar. Hjálmari er þökkuð vel unnin störf og hlökkum við til að vinna áfram með honum í að efla yngri flokkastarf deildarinnar.
Sem fyrr segir var tímabilið langt og krefjandi en á sama tíma gríðarlega gott fyrir körfuknattleiksdeildina. Nú er stefnan sett enn hærra! Við stólum á áframhaldandi stuðning frá samfélaginu sem hefur reynst okkur gríðarlega vel í vetur. Við höfum þurft að finna nýjar leiðir til að fjármagna starfið og má þar t.d. nefna bolludagsbollu baksturinn og sumarnúða fyrirliðans. Samfélagið okkar og stuðningsmenn tóku þessum fjáröflunum gríðarlega vel og viðtökurnar gerðu það að verkum að hægt var að klára tímabilið með reisn. Dominos deildin nálgast og við segjum því sem fyrr – Áfram Sindri!!!