Loftslagsyfirlýsing Festu og Sveitarfélagsins Hornafjarðar

0
488

Sveitarfélagið Hornafjörður og Festa – miðstöð um sjálfbærni og samfélagsábyrgð gerðu með sér samkomulag í desember sl. um stuðning um loftslagsaðgerðir fyrirtækja og stofnana í sveitarfélaginu 2021-2022.
Markmið með verkefninu er að hvetja fyrirtæki og stofnanir í Hornafirði til að setja sér markmið í loftslagsmálum, fræðast um leiðir til aðgerða, framkvæma aðgerðir og mæla árangur þeirra. Með því að taka þátt í loftslagsverkefni Festu og Sveitarfélagsins Hornafjarðar gefst þátttakendum því tækifæri til að að njóta leiðsagnar og hvatningar varðandi markmiðasetningu og árangursmælingar í loftslagsmálum.
Loftslagsyfirlýsingin, sem var þróuð af Festu og Reykjavíkurborg, var fyrst undirrituð í Höfða árið 2015 af forstjórum yfir eitt hundrað fyrirtækja og stofnana. Var það gert í aðdraganda Parísarráðstefnunnar um loftslagsmál (COP21) og vakti þátttakan, sem var vonum framar, athygli á alþjóðavettvangi. Frá þeim tíma hafa fleiri fyrirtæki og sveitarfélög bæst í hópinn, en árið 2019 undirrituðu Festa og Akureyrarbær samstarf um loftslagsyfirlýsingu. Nú hefur Sveitarfélagið Hornafjörður ákveðið að bætast í hópinn.
Á næstu dögum munu fyrirtæki og stofnanir fá sent boð frá Sveitarfélaginu Hornafirði og Festu um að taka þátt í verkefninu og undirrita loftslagsyfirlýsinguna. Þann 26. febrúar verður skrifað undir yfirlýsinguna við hátíðleg athöfn, og á sama tíma mun sveitarfélagið kynna nýja stefnumörkun sína með áherslu á innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Sveitarfélagið hvetur fyrirtæki og stofnanir til að taka verkefninu fagnandi og hlakkar til samstarfs varðandi loftslagsmál í framtíðinni. Jafnframt er vakin athygli á janúarráðstefnu Festu sem verður haldin næstkomandi fimmtudag, ráðstefnan verður rafræn og öllum opin. Finna má upplýsingar um hana á fésbókarsíðu Festu.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri