Loftslag og leiðsögn í Austur-Skaftafellssýslu

0
1397
Jökulsárlón séð frá Skúmey

Nýheimar þekkingarsetur hefur í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð unnið að gerð fræðsluefnis um loftslagsbreytingar. Það er nú aðgengilegt á heimasíðunni www.nyheimar.is undir hlekknum “Loftslag og Leiðsögn – Climate and guidance”. Er textinn bæði á íslensku og ensku.
Verkefnið er liður í stærra samvinnuverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Vatnajökulsþjóðgarðs, Hörfandi jöklar, í tengslum við sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Markmið þessa verkefnis er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar, orsakir þeirra og áhrif. Er aukin þekking almennings forsenda þess að unnt verði að sporna við þeirri þróun sem á sér stað á sviði loftslagsmála.
Samstarfshópur innan Nýheima vann að samantekt efnisins og naut liðsinnis Snorra Baldurssonar líffræðings og Hrafnhildar Hannesdóttur jöklafræðings. Gerð og miðlun efnisins er hugsuð til að auka aðgengi að heildstæðum og áreiðanlegum upplýsingum um loftlagsbreytingar með sérstaka áherslu á náttúru Austur-Skaftafellssýslu. Við samantektina var hugsað til þess að efnið nýtist í starfi leiðsagnar og móttöku ferðafólks í nágrenni Vatnajökuls. Ferðaþjónustan nýtir stórbrotna náttúru landsins sem vettvang til fræðslu og miðlunar upplýsinga og hefur þannig einstakt tækifæri til þess að stuðla að aukinni þekkingu almennings um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og mannlíf.
Er það von aðstandenda verkefnisins að afurð þess nýtist sem flestum.