Lífæðin

0
2304

Útgáfu bókarinnar Lífæðin, eftir þá Pepe Brix og Arnþór Gunnarsson, var fagnað í Skreiðarskemmunni laugardaginn 10. júní. Fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn þar sem aðdragandi útgáfunnar var rakinn og ljósmyndum eftir höfundinn varpað upp á vegg.

Fyrsta eintak bókarinnar var afhent Birni Lúðvík Jónssyni (Lúlla) en það vildi þannig til að hann kemur tvívegis fyrir í bókinni. Fyrst á eldri mynd eftir frænda sinn Sigurð Eymundsson í Framnesi, þá ungur að árum á síldveiðum norður fyrir landi. Síðar í bókinni birtist hann á einum af myndum Pepe, þá meira en hálfri öld síðar, við vinnu í veiðafæragerð Skinneyjar – Þinganess. Sannarlega góður fulltrúi þess fólks sem bókin er tileinkuð, sjómönnum og landverkafólki á Hornafirði í gegnum tíðina.

Andri Þorsteinsson spilaði á harmonikku við upphaf viðburðarins og þau Salome Morávek, Birkir Þór Hauksson og Þorkell Ragnar Grétarsson spiluðu síðan nokkur lög í lokin.

Bókin er gefin út af Forlaginu í samvinu við Skinney-Þinganes. Bókin er nú fáanleg í Gömlubúð, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Þórbergssetri og Skaftafellsstofu.