Lægri flugfargjöld með Loftbrú jafna aðstöðumun íbúa

0
518

Íbúar á suðausturhorninu eiga þess nú kost á að fá lægri flugfargjöld innanlands. Við höfum undirbúið verkefnið um nokkurt skeið undir heitinu skoska leiðin – en skrefið var stigið til fulls í vikunni þegar ég opnaði Loftbrú með formlegum hætti á þjónustuvefnum Ísland.is. Það var í senn tímabært og sérlega ánægjulegt að koma þessu í loftið.
Loftbrú veitir íbúum með lögheimili á búsetusvæðum fjærst höfuðborginni 40% afslátt af heildarfargjaldi í þremur ferðum á ári (sex flugleggjum) til og frá höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er mjög skýrt, að jafna aðstöðumun íbúa á landinu og bæta aðgengi að miðlægri þjónustu í höfuðborginni. Heilbrigðisþjónustan er sú sem flestir þurfa á að halda, en ekki síður menntun, menning, afþreying ásamt samskiptum við ættingja og vini er þar búa.
Í samtölum mínum við fólk víðsvegar um landið hefur umræða um ójafnt aðgengi að þjónustu oftar en ekki skipað stóran sess í huga fólks. Flestir landsmenn búa á suðvesturhorninu og hefur opinber þjónusta byggst þar upp. Íbúar á landsbyggðinni kannast vel við það að þurfa að reiða fram hærri fjárhæðir til að komast á milli landssvæða en þorri landsmanna til að fá aðgang að sömu þjónustu. Þetta er skekkja í kerfinu sem þarf að leiðrétta, ekki síst með það í huga að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna.
Fyrirmyndin að Loftbrú er sótt til Skotlands og hefur verið til umræðu um nokkurt skeið. Þar hefur þessi leið heppnast vel og hjálpað til við að halda í og laða að ungt fólk til dreifbýlli svæða. Skoska leiðin var eitt af loforðum Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og ein af aðgerðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi í samgönguáætlun.
Í mínum huga er Loftbrú ein af mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því tekið stórt skref til að koma á móts við grunnþarfir fólks sem býr úti á landi. Ísland ljóstengt er annað gott dæmi um vel heppnaða byggðaaðgerð sem leggur áherslu á sem mest jafnræði landsmanna hvað varðar aðgang að fjarskiptainnviðum.
Lægri flugfargjöld verða liður í því að gefa fólki ennfrekari kost á því að velja sér búsetu um landið og renni þá frekari stoðum undir þá stefnu sem Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir sem eru störf án staðsetningar sem leiðir vonandi til þess að búseta á landsbyggðinni verði auðveldari kostur fyrir fólk. Þannig mun búseta á landsbyggðinni styrkjast og efla þar samfélögin. Þá mun leiðrétting þessi hafa víðtæk samfélagsleg áhrif, auka lífsgæði, og efla höfuðborgina okkar ekki síður.
Í Skotlandi hefur flugferðum fjölgað og ef greiðsluþátttaka stjórnvalda með þessum hætti hjálpar flugfélögum að halda uppi þjónustustigi er það af hinu góða og stuðlar að öruggum samgöngum. Einhverjir hafa haft þær áhyggjur að flugfélögin myndu sjá sér leik á borði og hækka fargjöldin en mér er það til efs að það væri góð ákvörðun að hækka flugfargjöld til allra hinna sem njóta ekki þessara mótvægisaðgerða.
Það er afskaplega einfalt að nýta sér afsláttarkjör með Loftbrú. Á Ísland.is auðkennir fólk sig með rafrænum skilríkjum og sér þar yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem nota má á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug er pantað. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur málið frekar á vefnum Loftbru.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra