Kvennaverkfall á Höfn

0
288

Jafnrétti er barátta sem seint ætlar að taka enda, árið 1975 lögðu um 90% allra kvenna á Íslandi niður störf til þess að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaðnum og krefjast jafnréttis í réttinda- og kjaramálum. Síðan hafa konur lagt niður störf og mótmælt árin 1985, 2005, 2010, 2016, 2018 og nú í sjöunda sinn verður gengið til mótmæla og konur og kvár hvött til þess að leggja niður störf 24. október næstkomandi. Hornfirðingar ætla ekki að láta sitt eftir liggja og tóku konur í bæjarstjórn Hornafjarðar málin í sínar hendur, þær Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir, Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Hjördís Edda Olgeirsdóttir, Eyrún Fríða Árnadóttir, Gunnhildur Imsland og Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir. Upp kom sú umræða hvort einhver væri að skipuleggja mótmæli hér, sem reyndist ekki vera, svo þær ákváðu að hrinda þessu í framkvæmd, enda snertir þetta þær eins og aðrar konur. Þær segja mikilvægt að rifja upp hvers vegna þessi dagur er og kynna söguna á bakvið kvennaverkfallið fyrir þau sem þekkja hana lítið eða ekki. „Við viljum halda því á lofti sem konur hafa áorkað fyrir okkar hönd og ekki síst halda áfram baráttunni, hún er ekki búin“.
Viðburðurinn mun fara fram á ráðhústorginu, þar sem konur munu ganga í samstöðugöngu yfir á veitingastaðinn Heppu, þar sem boðið verður upp á súpu og dagskrá sem enn er í vinnslu og jafnvel verði sýnt frá fundinum á Austurvelli. Þær hvetja alla til þess að sýna samstöðu og taka þátt í deginum, og biðja atvinnurekendur um að skipuleggja daginn þannig að konur og kvár hafi tök á að mæta. Einnig minna þær konur sem einhverra hluta vegna geti ekki tekið þátt, eins og t.d. konur í ummönnunarstörfum, að merkja sig á samfélagsmiðla með myllumerkinu #ómissandi.

Að lokum vilja þær hvetja alla áhugasama sem vilja vera með erindi eða atriði að hafa samband við undirbúningsnefnd

Áfram stelpur, þetta varđar okkur öll!