Kraftur í framkvæmdum við nýja hitaveitu á Höfn

0
817
Loftmynd frá Hoffelli sem sýnir tank veitunnar efst til vinstri, dælustöð hægra megin og borholuhús neðst til hægri.

Framkvæmdum við nýja hitaveitu á Höfn hefur miðað vel í sumar. Unnið hefur verið af krafti við lagningu 20 km. stofnlagnar frá Hoffelli til Hafnar samhliða byggingu dælustöðva. Framkvæmdum við jöfnunartank veitunnar er nú lokið og verið er að reisa borholuhús og klára frágang dælustöðva í Hoffelli og á Stapa. Þá hefur verið unnið að breytingum á kyndistöð RARIK svo hún geti þjónað nýju hlutverki í dreifikerfi nýrrar hitaveitu.
Hús kyndistöðvarinnar hefur nýst vel í áranna rás og verið lagað að aðstæðum og starfseminni á hverjum tíma, fyrst sem diesel rafstöð, svo einnig sem kyndistöð og loks bættist við hlutverk aðveitustöðvar. Í dag standa eftir nokkrir metrar af lögnum og tveir lokar af upphaflegum búnaði diesel rafstöðvarinnar, öllu öðru hefur verið skipt út. Gert er ráð fyrir að kyndistöðin verði áfram í húsinu á meðan reynsla er að koma á rekstur hitaveitunnar, en til framtíðar er gert ráð fyrir að þar gæti verið varmadæla til að nýta varmann út bakvatninu, ef þörf verður á að spara vatnsupptöku úr jarðhitakerfinu við Hoffell.

Unnið að byggingu dæluhússins.

RARIK stefnir að því að tengja nýju stofnlögnina við dreifikerfi veitunnar á Höfn síðar í haust, en þá munu allir sem nú eru tengdir fjarvarmaveitunni tengjast borholusvæðinu við Hoffell og á sama tíma munu nýir notendur í Nesjum, þar á meðal í Nesjahverfi, tengjast veitunni. Fyrst um sinn munu þannig um 2/3 hlutar húsa á Höfn sem í dag tengjast fjarvarmaveitu RARIK tengjast hitaveitunni.
Næsta vetur verður haldið áfram að tengja einstaka fasteignir sem liggja við núverandi dreifikerfi veitunnar. RARIK mun fljótlega bjóða út lagningu nýrra stofnlagna dreifikerfisins í Vesturbraut og Silfurbraut og er áætlað að framkvæmdir við þær geti hafist snemma næsta vor. Nýir notendur við þessar götur munu í framhaldinu tengjast dreifikerfi veitunnar.