Komið að tímamótum – þakka fyrir mig

0
3122
Þessi hafa aðstoðað og tekið mestan þátt í útgáfunni f.v. Heiðar Sigurðsson, Tjörvi Óskarsson, Guðlaug Hestnes, Maríus Sævarsson, Ásta Ásgeirsdóttir, Albert Eymundsson, Sævar Þór Gylfason, Sigríður Arna Ólafsdóttir, Örn Arnarson og Jón Gunnar Gunnarsson.

Tæp átta ár eru síðan ég endurvakti útgáfu Eystrahorns. Þá tók ég fram að um þriggja mánaða tilraunaútgáfu væri að ræða. Það hefur teygst á þessum þremur mánuðum sem eru að verða átta ár. Með miklu aðhaldi, þar sem blaðsíðufjöldi hefur verið miðaður við tekjur, hefur þetta gengið.
Nú er komið að tímamótum og þetta tölublað er það síðasta sem ég sendi frá mér. Ég er sáttur við að draga mig í hlé, sérstaklega þar sem ég hef fundið fólk til að taka við. Yngra fólk sem ég treysti vel og bind vonir við vegna þess að það hefur meiri möguleika til að breyta og efla útgáfuna með kunnáttu sinni og jafnvel nýta upplýsingatæknina betur.
Mörgum ber að þakka eftir þennan tíma; svo mörgum að ég verð að sleppa því að telja þá alla upp. Öllum sem ég hef átt samskipti við og samvinnu færi ég þakkir sem og lesendum og vildaráskrifendum sem geta nú hætt greiðslum. Ég er þakklátur fyrir hvað starfsemin hefur almennt gengið vel fyrir sig.

Ég óska, Tjörva og Guðrúnu Ásdísi, nýjum útgefendum velfarnaðar og vona að einstaklingar, stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki standi við bakið á útgáfunni áfram eftir sumarhlé.

Albert Eymundsson