Knattspyrnuþjálfarar Sindra

0
923
Halldór Steinar, Óli Stefán og Veselin

Þann 8. október rituðu Óli Stefán Flóventsson, Veselin Chilingirov og Halldór Steinar Kristjánsson undir samninga sem þjálfarar hjá knattspyrnueild Sindra. Þetta er stór áfangi fyrir knattspyrnudeildina sem með þessu tryggir sér þjónustu vel menntaðra og reynslumikilla þjálfara. 

Óli Stefán Flóventsson
Óli hefur lengi verið landskunnur sem bæði leikmaður og þjálfari.  Áður hefur hann stýrt liði Grindavíkur úr næst efstu deild í þá efstu og síðan KA á Akureyri í efstu deild.  Leiðir Sindra og Óla lágu saman árin 2010 – 2014 þegar hann þjálfaði og lék með liðinu og reyndist þá mikill happafengur í báðum hlutverkum.  Óli er með UEFA pro gráðu í þjálfun. Óli kemur til með að stýra meistaraflokki karla og 5. flokki hjá Sindra.

Veselin Chilingirov
Veselin kom til Sindra í fyrra sem þjálfari meistaraflokks kvenna og yngri flokka félagsins.  Veskó sem er Búlgari hafði áður þjálfað hjá 2. og 3 flokk hjá Leikni Reykjavík.  Samvinna Sindra og Veskó hefur verið farsæl.  Hann hefur staðið sig vel sem þjálfari yngri flokka Sindra auk þess að byggja upp ungt og efnilegt lið meistaraflokks kvenna.  Veskó er með UEFA B gráðu en er í UEFA A eins og stendur.  Veskó mun áfram stýra meistaraflokki kvenna hjá Sindra auk þess að þjálfa 4. og 3. flokk hjá félaginu.

Halldór Steinar Kristjánsson
Steinar mun þjálfa 6. og 7. flokk næsta tímabil í það minnsta en hann tók yfir þjálfun þessara flokka síðast liðið vor. Steinar er einn af leikjahæstu leikmönnum Sindra frá upphafi og var lengi einn af helstu máttarstólpum liðsins. Hann er íþróttafræðingur frá Laugarvatni og hefur langa reynslu af þjálfun. Núna síðast þegar hann tók yfir þjálfun meistaraflokks karla ásamt Sindra Ragnarssyni í sumar.

fh. Stjórn Knattspyrnudeildar Sindra
Hjalti Þór Vignisson, formaður