Í síðustu viku afhentu Ósfélagar leiktæki til Leikskólans Sjónarhóls á Höfn en leikskólinn er auðkennisverkefni hjá Ós. Það er vert að nefna að fyrsta verkefni klúbbsins var að gefa leikskólanum á Höfn kastala en Ós á 35 ára afmæli á þessu ári og því fannst okkur við hæfi að hugsa til leikskólans.
Maríanna Jónsdóttir leikskólastjóri tók formlega við leiktækjunum og viðstaddir voru nokkrir leikskólastarfsmenn og börn á leikskólanum. Börnin vildu helst strax fara að leika sér en festa þarf leiktækin vel niður áður og munu starfsmenn áhaldhúss gera það við fyrsta tækifæri. Leiktækin sem eru brunabíll og hús eru að andvirði 3,5 milljóna og eins og áður sagði vill Ós gefa stórt til samfélagsins í tilefni af 35 ára afmælinu.
Ósfélagar hafa verið að gefa ýmislegt annað, þar má nefna 500.000 kr til Kiwanis Children Fund barnahjálparsjóð Kiwanis í sérstaka Úkraínusöfnun á vegum þeirra.
Í síðasta mánuði styrktum við dagþjónustu fatlaða á Höfn með ýmis spil og skákborð að andvirði 100.000 kr og var gjöfunum vel fagnað. Þá var lokið við að afhenda öryggishjálmana frá Kiwanis og gaman er að sjá hversu glöð börnin verða þegar þau fá hjálmana.
Í lok maí er ætlunin að halda braggaveislu til þakka félögum og mökum fyrir vel unnin störf á liðnum vetri. Þá er stefnt að því að halda almennt ball á Hafinu í september með Babies flokknum.
Framundan er sala á K-dagsmerkjum til styrktar geðvernd barna og unglinga og vonum við að sölufólki okkar verði vel tekið. Salan á K-dagsmerkjum hefst 10. maí og stendur út mánuðinn.
Það gefur lífinu gildi að taka þátt í störfum sem styrkja samfélagið og ekki síður að gleðja börnin. Megnið af fjáröflun klúbbsins kemur í gegnum sölu á jólatrjám, hinni árlegu Groddaveislu og í Páskabingói og þökkum við öllum þeim sem styrkja okkur.
Nýir félagar eru ávallt velkomnir í Ós. Þá er unnið að stofnun kvennaklúbbs og hægt er óska eftir upplýsingum á netfanginu seinars@kiwanis.is
Félagar í Ós óska öllum gleðilegs sumars og þakka veittan stuðning.