Kiwanis og aðventan

0
971
Félagar í Ós í Steinadal

Nú er langt liðið á aðventu en hún er jafnan einn annamesti tími í kiwanisstarfinu þar sem klúbbar landsins eru með sínar stærstu fjáraflanir á þessum tíma. Það er margt sem klúbbar gera til að afla fjár t.d. að selja jólatré, jólasælgæti eða kerti.
Þegar líða fer að aðventu fara klúbbfélagar í Ós að huga að skógarhöggi en flest tré koma úr héraði. Rauðgreni og blágreni kemur frá Miðfelli og furan kemur úr Steinadal. Bæjartréð sem stendur hjá Nettó kemur lengra að en það kemur úr Hallormsstaðaskógi. Líkt og áður kemur normansþinur frá Danmörku en sala innlendra trjáa eykst frá ári til árs og er það ánægjuefni. Þegar sala jólatrjáa hefst skiptast klúbbfélagar á að standa vaktina en eins og undanfarin ár fer salan fram á planinu hjá Nettó.
Hluti af ágóða sölunnar fer í að styrkja tíu bágstaddar fjölskyldur í sveitarfélaginu. Nettó leggur fram 250.000 kr á móti Styrktarsjóði Óss og samtals fara því 500.000 kr til bágstaddra fjölskyldna í sveitarfélaginu. Ós lætur Samfélagssjóð Hornafjarðar um að deila út styrkjunum til fjölskyldna.
Það er víða þörf á aðstoð og Ós styrkir bæði í heimabyggð og einnig í gegnum Kiwanis Children Fund. Aðalmarkmiðið er að styðja verkefni þar sem er verið að hjálpa börnum og ungmennum. Eitt af verkefnum sem Ós tók þátt í á síðasta ári var sérverkefnið Happy Child á vegum Kiwanis Evrópu en það einbeitir sér í samstarfi við SOS barnaþorpin að hjálpa börnum sem hafa glatað foreldrum sínum í Sýrlandi. Dæmi um önnur verkefni sem Ós hefur styrkt er t.d. styrkur til að kaupa íþróttagleraugu fyrir börn, Kiwanisdúkka sem prestar í Bjarnanesprestakalli hafa afhent á foreldramorgnum, leikskólarnir hafa í gegnum tíðina fengið sinn skerf og þannig mætti lengi telja.
Kiwanishreyfingin hefur starfað á Íslandi síðan 1962 og Kiwanisklúbburinn Ós frá 1987 eða í 32. ár. Til að Kiwanis geti starfað áfram þarf að fá nýja félaga í hreyfinguna og þar eru alltaf allir velkomnir. Það eru til karlaklúbbar, kvennaklúbbar og blandaðir klúbbar. Í vetur er unnið að stofnun kvennaklúbbs á Hornafirði og hægt að hafa samband á netfanginu claudia@kiwanis.is ef áhugi er á að vera með.

Jólatréssalan okkar hefur alltaf fengið frábærar viðtökur og vonumst við að sem flestir Hornfirðingar kaupi sín jólatré hjá okkur. Með því hjálpið þið okkur að hjálpa öðrum. Síðasti söludagur er á Þorláksmessu en yfirleitt er opið milli 16 og 18 en lengur um helgar. Við erum við græna gáminn austan við Nettó. Fyrir hönd klúbbfélaga óska ég öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Sigurður Einar Sigurðsson
félagi í Ós