Jórunn Anna Hlöðversdóttir Schou

0
1690
Mynd frá Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Anna ásamt sonum hennar og Sigurðar. Í aftari röð frá vinstri eru Stefán, Ásmundur, Hlöðver og Þórhallur, í fremi röð Geir, Anna og Hróðmar.

Anna Lúðvíksdóttir var langalangamma mín. Ég er tengd henni í föðurætt.
Geir Sigurðsson langafi minn er faðir afa míns, Þorsteins Geirssonar. Anna er langamma föður míns, Geirs Þorsteinssonar. Hún er sem sagt formóðir mín í fjórða lið.

Kvenfélagið Grein í Lóni / Samband austur – skaftfellskra kvenna

Þann 18. desember árið 1972 ályktuðu Sameinuðu þjóðirnar að árið 1975 skyldi sérstaklega ætlað og helgað málefnum kvenna, undir kjörorðunum: Jafnrétti – Framþróun – Friður.
Stjórnir aðildarríkjanna voru hvattar til að hugsa um stöðu kvenna og til aðgerða til þess að stuðla að því að kvenmenn taki fullan þátt í flestum sviðum þjóðlífs. Í mörgum löndum var byrjað að fara eftir þessum kjörorðum og var byrjað að bæta hag kvenna. Ísland var einnig duglegt til að bæta stöðu kvenna. Hjá Morgunblaðinu unnu fjórar konur sem skrifuðu vikulega heilsíðu allt árið 1975 og kallaðist það ,,Í tilefni kvennaárs”. Þær komu á framfæri við konur í landinu að þær væru opnar fyrir því að mæta á fundi, sjá starfshætti og verkefnaval félaga til þess að notast við skrif þeirra fyrir Morgunblaðið. Fyrstu sem höfðu samband við þær var Samband austur-skaftfellskra kvenna, um boð á aðalfund þeirra að Reyðará í Lóni sunnudaginn 6. apríl. Í sambandinu voru einungis sex kvenfélög og var það fámennasta, Kvenfélagið Grein í Lóni sem í voru einungis tíu konur. Hinsvegar voru um tvöhundruð konur í Sambandi austur – skaftfellskra kvenna. Þótt Grein væri fámennt félag var það þó góðmennt. Þótt félögin væru fá unnu þau mörg störf og er hægt að lesa um þau í starfsskýrslu félaganna.
Sigurlaug Árnadóttir í Hraunkoti var sambandsformaður og sá um að stjórna aðalfundinum. Hún sagði meðal annars frá komandi alþjóðlega kvennaárinu og markmiðum Sameinuðu þjóðanna. Allar sem komu með mál eða umræður á fundinn voru mjög vel lesnar og höfðu rök til stuðnings. Fundurinn var haldinn í stofunni á Reyðará í Lóni, Vigdís Guðbrandsdóttir húsfreyja og amma mín sá um að öllum liði vel og allar fengu gott að borða.

Fjallað um Önnu

Þann 21. janúar 1985 barst bréf til Morgunblaðsins. Bréfið var frá Halldóru Gunnarsdóttur á Brunnum í Suðursveit. Í bréfinu skrifar Halldóra; Þakka….kynni á fundinum forðum á Reyðará”. Hún segir einnig að hún þakki fyrir flutninginn á erindum kvenna í útvarpinu og því sem þættirnir byggjast á. En hún kemur líka með spurningu til viðtakanda bréfsins og biður hann um hvort hægt sé að taka saman grein og fjalla um Önnu Hlöðversdóttir kennara frá Reyðará í Lóni. Hún segir að hún sé hreint einstök manneskja sem sé verðugt að skrifa um. Halldóra var eitt sinn nemandi hennar. Hún notaði ýmsar hugmyndir Önnu frá því að hún kenndi henni þegar hún var til dæmis að gera stílsverkefni þegar hún var á Héraðsskólanum á Laugum í Suður – Þingeyjarsýslu veturinn 1954-55. Halldóra skrifaði einnig um Önnu þegar þau áttu að gera ,,Mannlýsingu”. Þáverandi prestsfrú á Kálfafellsstað, Þóra Einarsdóttir bað Halldóru um mannlýsingargreinina og fékk að birta hana í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélags Íslands árið 1955. Þar komu allar helstu upplýsingar um Önnu, hvernig hún kynntist henni og hversu gott var að þekkja svona góða konu sem studdi hana. Einnig kemur fram hversu kjarkur hennar var mikill, trú hennar á lífið og mennina og bjartsýnin sem ríkti í henni.

Sagan um Önnu Lúðvíksdóttur Schou

Jórunn Anna Lúðvíksdóttir Schou, sem var hennar fulla nafn, fæddist þann 29. september árið 1876 í Vallaneshjáleigu á Fljótdalshéraði í Suður – Múlasýslu. Foreldrar hennar voru Elín Einarsdóttir frá Vallanesi, fædd árið 1842 og Ludvig Schou danskur í föðurætt, fæddur árið 1825. Hann var um tíma verslunarstjóri á Húsavík, seinna sölumaður á verslunarskipi Gránufélagsins og seinast bóndi í Vallaneshjálegu. Bróðir Elínar var séra Hjörleifur á Undirfelli í Húnavatnssýslu, sonur hans var Einar H. Kvaran rithöfundur og voru þau Anna systkinabörn.
Anna átti tvö alsystkini, það voru þau Þóra Ingibjörg Schou Lúðvíksdóttir og Einar Sigurður Lúðvíksson Schou. Samfeðra systkini voru Sigríður Þórdís Björg Lúðvíksdóttir og Emil Hermann Ludvig Schou. Þegar Anna var níu ára lést móðir hennar og hætti þá faðir hennar búskap. Fjórum árum seinna lést hann og var Anna tekin í fóstur til Margrétar Sigurðardóttur frá Hallormsstað sem var frænka hennar. Hún var gift séra Jóni Jónssyni frá Melum í Hrútafirði, sem var prestur að Bjarnanesi í Hornafirði. Önnu þótti afskaplega vænt um Margréti, hún var merkis kona og hafði góðan skilning og vit á heiminum. En Anna sagði ekki margt um séra Jón, þar sem hún sagði að hann hefði mestan áhuga á fræðiiðkunum sínum. Hann kenndi Önnu þó margt, þar sem hann var mikill fræðimaður.
Anna flutti ásamt fósturfjölskyldunni að Stafafelli, og var hún um fermingu þegar þau fluttust þangað. Margrét fóstra hennar lést vorið 1899 og giftist fósturfaðir hennar Guðlaugu Vigfúsdóttur.
Haustið 1894 þegar Anna var átján ára fór hún í kvennaskólann að Ytri-Ey sem var í Húnavatnssýslu. Stundaði hún þar nám í tvo vetur og lærði hún margt af því. Anna sneri svo aftur í Stafafell eftir skólann og ári seinna á afmælisdegi hennar, giftist hún Sigurði Jónssyni búfræðingi frá Setbergi í Hornafirði. Hann vann þá hjá séra Jóni í Stafafelli, fósturföður Önnu. Fyrstu tvö árin þeirra í hjónabandi voru þau á Stafafelli og eignuðust þar sitt fyrsta barn. Seinna fluttust þau að Reyðará í Lóni og bjuggu þar allt sitt líf. Ekki var jörðin í fyrstu góð til að búa á og þurfti að gera margt til að laga hana og stækkuðu þau við bújörðina Bæ sem var landnámsjörð á þessu svæði. Anna og Sigurður eignuðust samtals sex börn, allt strákar og voru það þeir Hróðmar Sigurðsson, Þórhallur Sigurðsson, Hlöðver Sigurðsson, Ásmundur Sigurðsson, Stefán Sigurðsson og Geir Sigurðsson.
Anna varð ekkja aðeins 41 árs þar sem Sigurður lést úr lungabólgu þann 1. mars árið 1917. Hún var því ein með sex syni sem þurfti að ala upp og voru ekki bjartir tímar framundan. Tekjur minnkuðu og innfluttar vörur hækkuðu, samhliða því að afurðir búanna lækkuðu í verði. Anna gafst þó ekki upp, börnin voru hennar ríkidæmi sem hún vildi varðveita. Hún var dugleg að biðja til Guðs. Anna hafði trú á því að með Guðs hjálp og samheldni fjölskyldunnar gætu þau komist í gegnum þessa erfiðu tíma. Henni varð að ósk sinni. Geir elsti sonur þeirra hjóna aðstoðaði móður sína og einnig var Ólöf Ólafsdóttir húsmóðir hjá þeim og hjálpaði til með heimilið.

Mynd af krökkunum í Suðursveit í búningum sem var notaður við leikrit.
Eigandi myndar: Halldóra Gunnarsdóttir.

Þegar Anna var um fertugt gerðist hún barnakennari, en það starf fylgdi henni til æviloka. Börn og unglingar hændust að henni og var þeim oft komið í umsjá hennar til kennslu, löngu áður en hún varð kennari með fasta stöðu. Margir sögðu að hún hafi verið kennari af Guðs náð. Anna kenndi í mörg ár og kenndi hún meðal annars í Lóni, Suðursveit og í Álftafirði.
Árið 1946, þegar Anna varð sjötug fékk hún afmæliskveðjur frá tveimur merkum skólamönnum samtíðar sinnar. Ólafur Þ. Kristjánsson, skólastjóri skrifaði í tímaritinu Menntamál í október sama ár, grein um Önnu. Í þeirri grein kemur meðal annars þetta fram; ,,Anna gerðist farkennari í Lóni 1928. Hefur hún síðan kennt þar eða annars staðar í Austur – Skaftafellssýslu. Hún hefur verið með afbrigðum áhugasöm í starfi sínu og gefið gaum að nýjum kennsluaðferðum, svo að hún gæti náð sem bestum árangri í hvívetna. Kennaranámskeið og kennaraþing hefur hún sótt flestum öðrum betur og notað tímann vel.”.
Þegar öll börnin uxu úr grasi og einnig sum barnabörnin, flutti Anna til Siglufjarðar þar sem Hlöðver sonur hennar var skólastjóri og átti fjölskyldu þar. Einnig var Hlöðver með ung börn svo hugur Önnu beindist að þeim. Önnu fannst Siglufjörður vera fínasti bær og gerði hún það sem henni þótti best, kenna ungum börnum að lesa. Á Siglufirði lést hún þann 14. apríl 1953, 76 ára gömul.

Lúðvíksdóttir eða Hlöðversdóttir?

Fósturfaðir hennar Önnu Jón Jónsson, vildi að Anna myndi bera föðurnafn sitt á íslenskan hátt, meira tengt Íslandi. Upphaflega var nafnið hennar ritað sem Anna Ludvigsdóttir Schou, en fornnorræna mynd Ludvigs nafnsins er Hlöðver. Að lokum breyttist nafn hennar, varð meira íslenskt – Anna Lúðvíksdóttir Schou.

Viðtal við Halldóru Gunnarsdóttur

Þann 3. desember skrapp undirrituð í heimsókn til Halldóru Gunnarsdóttur. Sem fyrr segir var hún nemandi hjá Önnu þegar hún var ung stúlka. Ég ræddi við hana um allskyns hluti tengda henni. Meðal annars hvernig persóna hún hefði verið, hvort hún hafi átt góða ævi og hvað hún kenndi krökkum. Við ræddum einnig um það hvernig samband var á milli þeirra og kom í ljós að þær voru nánar vinkonur og héldu þær sambandi eftir að Anna hætti að kenna Halldóru.
Það var mjög gaman að heyra að Halldóra átti enn stílsverkefni sem hún skrifaði á Laugum, og að hlusta á hana lesa það upp. Í textanum kemur meðal annars fram um ævi hennar og hvernig persóna hún var. Einnig kemur fram þegar Halldóra sá Önnu í fyrsta sinn árið 1941 í Suðursveit og hversu spennt hún væri að fá nýjan kennara. Halldóra lýsti meðal annars hvernig hún leit út, en Anna klæddist alltaf í upphlut eða peysuföt.
Áður en Anna kom í Suðursveit var hún búin að kenna í Lóni í um þrettán ár og var hún orðin 65 ára þegar hún byrjaði að kenna Halldóru. Hún kenndi með prýði, en var þó stundum erfitt að ferðast á milli en ekki hindraði það Önnu. Það sem einkenndi Önnu á ferðum hennar var að hún flutti alltaf vefstólinn sinn með sér, hún notaðist við hann í kennslu meðal annars. Anna kenndi krökkunum ýmislegt og var handavinna stór partur af kennslu hennar. Strákarnir skáru út kassa og máluðu kort af Íslandi meðan stelpurnar saumuðu út, bjuggu til körfur og kassa og ófu til dæmis púða og gólfmottur. Anna var alltaf dugleg að segja sögur, hún var svo næm að hún þurfti bara einu sinni að heyra vísu lesna og þá kunni hún hana. Einnig settu nemendur hennar upp mörg leikrit og kostaði tvær krónur á sýninguna. Peningurinn var svo notaður til þess að kaupa bækur.
Halldóra og Anna voru vinkonur eftir að hún hætti að kenna henni. Þær skrifuðust á og sögðu hvor annari fréttir úr lífi þeirra. Önnu var umhugað um að Halldóra myndi læra að skrifa rétt og kom fyrir að hún sendi bréf frá Halldóru til baka með leiðréttingum.
Allir sem þekktu Önnu dýrkuðu hana og þótti afar vænt um hana, öll börn elskuðu hana.
Halldóra segir að Anna hafi verið mjög góð kona, talaði ekki illa um neinn og vildi alltaf kenna jafnt börnum sem eldra fólki. Hún var dugleg að leiðrétta fólk ef það talaði vitlaust og hætti aldrei að kenna, þótt að hún hafi hætt störfum sem kennari.
Hún var léttlynd kona, úrræðagóð og kunni margt sem kom henni og öðrum vel. Hún bar alltaf nælu á sér með mynd af eiginmanni sínum, Sigurði og telur Halldóra að hún hafi syrgt hann mikið.
Þegar Halldóra minnist Önnu Hlöðversdóttur minnist hún einna allra bestu konu sem hún hefur kynnst.

Vigdís María Geirsdóttir