Jöklamælingar í FAS

0
868
Það er mikilvægt að allt sé rétt skráð

Það má segja að síðasta vika hafi verið tími jöklamælinga í FAS en þá voru bæði Fláajökull og Heinabergsjökull mældir. Þessar mælingaferðir eru hluti af vinnu í jarðfræðiáfanga annars vegar og inngangsáfanga að náttúruvísindum hins vegar. Nemendur kynnast mismunandi vinnubrögðum í vísindum auk þess sem tækifærið er notað til að virða umhverfið fyrir sér og rifja upp sögu svæðisins. Þau Kristín og Snævarr frá Náttúrustofu Suðausturlands fóru með í báðar ferðirnar og er það mikill fengur fyrir okkar nemendur að njóta sérþekkingar þeirra. Í upphafi vikunnar hafði snjóað nokkuð en báða mælingadagana var þó stillt og fallegt veður en nokkuð kalt.
Fyrri ferðin var að vestanverðum Fláajökli en FAS hefur fylgst með þeim hluta jökulsins frá árinu 2016. Þar er verið að nýta QGIS forrit og myndir frá gervihnöttum en margir gervihnettir eru á braut umhverfis jörðu og þeir eru í sífellu að taka myndir af jörðinni. Í mælingunum við Fláajökul eru notuð GPS tæki og stafrænn fjarlægðamælir til að finna út staðsetningu jökulsporðsins. Nákvæmni í vinnubrögðum er mikilvæg til að upplýsingar verði sem marktækastar. Upplýsingunum sem er safnað eru settar í QGIS forritið og út frá þeim er hægt að búa til mynd sem sýnir stöðu jökulsporðsins. Það eru ótrúlegar breytingar sem hafa átt sér stað á svæðinu. Í fyrstu ferðinni 2016 var hægt að ganga á jökulröndinni töluverðan hluta leiðarinnar en nú er komið 2-300 metra breitt lón fyrir framan jökulinn. Í þessari ferð vorum við líka að nota smáforritið citizenMorph sem við sögðum frá fyrr í haust.

Komin til baka frá Fláajökli

Seinni ferðin var að Heinabergsjökli en þar hafa orðið gríðarlegar breytingar undanfarin ár, sérstaklega norðan megin. Þar sem áður lá jökull er nú komið lón sen nær langt inn með Geitakinn. Mælingar á Heinabergsjökli voru allt fram til 2017 miðaðar út frá tveimur mælipunktum á landi en þá var orðið ljóst að það sem áður var talinn ísjaðar voru í raun stórar ísblokkir sem nú eru horfnar. Síðustu ár hefur því einungis verið mælt sunnan megin þar sem jökullinn hefur verið nokkuð stöðugur. Hópurinn hóf gönguna hjá brúnni yfir Heinabergsvötn en hún er gott dæmi um þegar jökulár finna sér auðveldari farveg. Þaðan var gengið yfir land sem allt er mótað af jökli og jökulvatni. Inni við lónið var töluvert meiri snjór en nær sjónum og því erfitt að finna kennileitin til að mæla. Því var brugðið á það ráð að nota fjarlægðamæli til að mæla vegalengd á nokkra staði á jökuljaðrinum. Á bílaplaninu við Heinabergslón beið hópsins bíll sem fór með okkur til Hafnar.
Næstu daga munu svo báðir hóparnir vinna úr þeim gögnum sem var safnað og vinna skýrslu.