Jöklamælingar FAS á Heinabergsjökli

0
1481

Síðastliðin 27 ár hefur Framhaldsskólinn í Austur – Skaftafellssýslu sinnt rannsókn þar sem kannaðar hafa verið breytingar á ástandi Heinabergsjökuls frá ári til árs.
Áfanginn INGA1NR05 – Inngangur að náttúru – og raunvísindum tók að sér að rannsaka Heinabergsjökul í ár, og var það þeirra framlag til Vísindadaga skólans. Vísindadagar, sem eru nýafstaðnir, felast í því að brjóta kennsluna upp með ýmissi rannsóknartengdri vinnu. Nemendum er þá boðið upp á nokkra hópa með mismunandi áherslum, og afraksturinn er kynntur þegar vinnu þeirra er lokið.
Það var miðvikudagsmorguninn 24. október sem nemendahópur frá FAS hélt af stað að Heinabergsjökli ásamt skólameistara, Eyjólfi Guðmundssyni, Hjördísi Skírnisdóttur kennara og þeim Lilju Jóhannsdóttur og Snævarri Guðmundssyni starfsmönnum Náttúrustofu Suðausturlands.
Hópurinn gekk frá gömlu brúnni yfir Heinabergsvötn að Heinabergslóni, þar sem mælingarnar voru framkvæmdar. Notast er við hornafræði til þess að mæla stöðu jökulsins, sem felst í því að gráður á tveimur hornum og lengd einnar hliðar er fundin. Með þessu fæst gráðufjöldi horns, og fjarlægð að punkti sem liggur í jöklinum.
Nemendur skiptu með sér hlutverkum til þess að auðvelda vinnuna. Hluti hópsins fann út gráður þríhyrningsins með byggingakíki, aðrir mældu vegalengd milli mælipunkta með málbandi, og enn aðrir tóku að sér ljósmyndun og upptöku af framkvæmdinni. Ekki má gleyma hópnum sem sá um að halda latta, þ.e. mælistiku, uppréttri svo allt yrði örugglega beint. Í ljós kom að jökullinn hafði hopað um það bil 20 metra, og hafði auðsjáanlega þynnst mikið frá fyrri árum.
Seinni hluti Vísindadaga var síðan nýttur til útreikninga og skýrsluvinnu nemenda.
Almennt voru rannsakendur ánægðir með ferðina, enda heppnaðist hún mjög vel. Ferðin gaf nemendum tækifæri á aðkomast út fyrir skólastofuna, kynnast námsefninu í eigin umhverfi og njóta náttúrunnar á öðruvísi hátt. Slíkt eru forréttindi sem eru ekki á færi allra skóla á landinu. Þessi upplifun fer beint í reynslubankann, og gerir námið mun líflegra.
Áhugasömum er bent á slóðina nattura.fas.is þar sem þeir geta nálgast frekari upplýsingar um rannsóknir nemenda í FAS.

Arndís Ósk Magnúsdóttir,
Ingunn Ósk Grétarsdóttir og
Wiktoria Anna Darnowska,
nemendur í INGA1INR05 við FAS