Jákvætt samfélag

0
1168

Við sem búum hér í sveitarfélaginu Hornafirði og erum þátttakendur í samfélaginu getum haft margvísleg áhrif og mótað það mannlíf sem við búum við. Eftir að hafa búið hér í rúm tuttugu ár hef ég séð samfélagssálina sveiflast upp og niður. Við höfum tekið svartsýnissveiflur með tilheyrandi framkvæmdaleysi, algjör bölmóður og allir tala samfélagið niður, þegar betur árar tekur jákvæðnin völdin og uppbygging verður á flestum sviðum. Þá verður léttara yfir öllu.

Mannlíf og uppbygging

Fækkun í dreifbýlinu hefur snúist við og viðfangsefnin önnur en fyrir nokkrum misserum. Nú er ekki lengur rætt um að leggja niður skóla eða hvar eigi að skera niður , sveitirnir hafa öðlast nýtt líf með tilheyrandi mannlífi og uppbyggingu þökk sé ferðamanninum og þeim sem tóku þá ákvörðun að útbúa aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum.
Sömu sögu er að segja í þéttbýlinu, almenn bjartsýni er ríkjandi. Flestir sem hér búa hafa trú á samfélaginu og eru tilbúnir að byggja upp og leggja sitt af mörkum til að hér verði skemmtilegt og blómlegt mannlíf og næg atvinna er fyrir alla.
Í sterku samfélagi er fjölbreytt atvinnulíf mikilvægt, ekki endilega mikil vinna eða langur vinnudagur heldur margvíslegar atvinnugreinar svo að allir geti fundið vinnu við sitt áhugasvið.
Við þurfum að vera öflugri að laða til okkar ný og fjölbreytt störf, móta stefnu í ferðatengdri afþreyingu til langs tíma, gera sveitarfélagið Hornafjörð að áfangastað sem vert að heimsækja og við íbúar getum verið stolt að taka á móti gestum.

Gullmola fullan af sögu

Nú þegar höfum við fullt af hlutum sem við sem samfélag getum verið stolt af, til dæmis erum með marga góða veitingastaði sem eru ofarlega á landsmælikvarða og við höfnina er komin skemmtilegur kjarni. Þar höfum við einnig gullmola, Miklagarð, fullan af sögu sem þarf að segja og varðveita. Væri sögu héraðsins ekki hátt gert undir höfði með að hafa hana í Miklagarði, endurbyggja húsið í nánast sömu mynd og koma fyrir sýningu í hluta húsins og hafa vinnustofur fyrir frumkvöðla í skapandi greinum í öðrum hluta þess ?
Hægt væri að tengja atvinnulífið við höfnina með því að leyfa ferðamönnum að fylgjast með löndun smábáta og vinnu við eina undirstöðugrein þjóðarinnar, fyrir framan Miklagarð.
Ég býð mig fram til sveitarstjórnar því ég hef áhuga á að búa í kraftmiklu, jákvæðu samfélagi.

Bryndís Hólmarsdóttir
4. sæti á lista Sjálfstæðismanna.