Dagana 12. – 14. ágúst var mikið líf og fjör á Silfurnesvelli þegar Íslandsmót 5. deildar karla í golfi var haldið á vellinum. Keppendur komu víða að, frá Ólafsvík, Grundafirði, Dalvík og Egilsstöðum. Í sveit GHH voru þeir Halldór Sævar Birgisson, Halldór Steinar Kristjánsson, Óli Kristján Benediktsson, Jón Guðni Sigurðsson, Kristinn Justiniano Snjólfsson og Sindri Ragnarsson. Fyrirfram má segja að sveit GHH hafi verið nokkuð sigurstrangleg, enda frábærir kylfingar í sveitinni og leikið á okkar heimavelli. Fyrir lokaumferðina voru okkar menn á toppnum en á lokadeginum féllu úrslit ekki með okkur og endaði GHH í þriðja sæti á mótinu. GVG, Golfklúbburinn Vestarr frá Grundarfirði, sigraði á mótinu og nágrannar þeirra í GJÓ, Golfklúbbnum Jökli frá Ólafsvík urðu í 2. sæti. Þó má geta þess að GHH var með flesta vinninga á mótinu eða átta talsins, en það dugði því miður ekki til, þar sem unnir leikir töldu og þar vantaði örlítið upp á til að landa bikarnum.
Margir lögðu leið sína í golfskálann til að kíkja á stöðuna og stemninguna og fjöldi fólks lagði hönd á plóg svo mótið mætti vera sem veglegast. Völlurinn okkar var í toppstandi og fékk Golfklúbbur Hornafjarðar mikið hrós fyrir aðstæður á vellinum. Það verður að nefna einn mann sérstaklega í því sambandi en formaður GHH, Gestur Halldórsson, hefur verið vakinn og sofinn yfir því að undirbúa völlinn fyrir mótið, jafnt að nóttu sem degi, auk þess sem hann hefur unnið að breytingum og bættum aðstæðum á vellinum í allt sumar með hjálp góðra manna. Golfskálinn hefur líka tekið algjörum stakkaskiptum og má þar nefna að breytingar hafa verið gerðar til að frábært útsýni úr skálanum fái notið sín sem best og var það að miklu leyti unnið í sjálfboðastarfi. Það er ekki sjálfgefið að hafa svona öfluga sjálfboðaliða í starfi sem þessu, en það er alveg ljóst að í GHH verður mannauðurinn ekki metinn til fjár.
Mikil og góð stemming er í golfklúbbnum um þessar mundir sem sást vel í skálanum um helgina og þegar þetta er skrifað eru tugir kvenna skráðar á Hefðarmeyjargolfmót þriðjudaginn 17. ágúst. Þar mæta konur í kjól og með hatt og spila golf með allskyns skemmtilegum áskorunum og þrautum og er mótið sérstaklega hugsað fyrir nýliða.
Að lokum er rétt að taka fram að sumarið er ekki búið og það er aldrei of seint að byrja að stunda golf!
Mótanefnd GHH