Improv Ísland á Höfn

0
545

Leikfélag Hornafjarðar í samstarfi við Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði til að bjóða nemendum skólanna upp á
spuna-kennslu. Um miðjan september kemur leikara- og spunahópur frá Improv Ísland og mun kennari frá þeim leiðbeina nemendum skólanna tveggja. Það er ekki á hverjum degi sem slíkur hópur kemur til Hafnar og viljum við að sem flestir myndu njóta góðs af og ætlar hópurinn þess vegna að vera einnig með námskeið sem er ætlað fullorðnum (18+). Námskeiðið er í boði leikfélags Hornafjarðar og fer fram á kvöldin dagana 18. – 21. september á Hafinu. Föstudaginn 22. september er stefnt á að halda sýningu og sýna afrakstur námskeiðsins fyrir áhorfendur en það verður auglýst sérstaklega. Frekari upplýsingar um námskeiðin verður að finna á facebook síðu leikfélagsins Leikfélag Hornafjarðar, en einnig hægt að fá upplýsingar í tölvupósti með því að senda póst á leikfelaghornafjardar@gmail.com. Leikfélag Hornafjarðar hlakkar mikið til samstarfsins og vonar að það falli vel í kramið hjá Hornfirðingum á öllum aldri.
Við hvetjum ykkur einnig til að læka Leikfélagið á Fb og Instagram, en þann miðil notum við mikið til að auglýsa með stuttum fyrirvara og skapa stemningu.

Bestu kveðjur
Emil Morávek