Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur í leikstjórn Hornfirðingsins Hlyns Pálmasonar verður forsýnd á Hafinu á Höfn í Hornafirði sunnudaginn 25.08. Um er að ræða fyrstu sýningu myndarinnar á Íslandi en hún var tekin upp að stórum hluta á Höfn eins og kunnugt er. Myndin verður í framhaldinu frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi þann 1. september. Myndlistarsýning í tengslum við myndina verður opnuð í Miklagarði klukkan 18 og salurinn verður opnaður á Hafinu fyrir sýningargesti klukkan 20. Sýningin hefst klukkan 21. Ingvar E. Sigurðsson, sem leikur aðalhlutverkið í myndinni, situr fyrir svörum ásamt leikstjóranum og öðrum aðstandendum myndarinnar.
Myndin var heimsfrumsýnd á Critics Week á Cannes kvikmyndahátíðinni í maí sl. Ingvar hlaut þar verðlaun sem besti leikarinn. Hann hlaut einnig verðlaun fyrir bestu frammistöðu leikara á kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu í Rúmeníu og var myndin valin sú besta á hátíð í Motovun í Króatíu fyrir skömmu. Nýverið var tilkynnt um að Hvítur, hvítur dagur er ein af 46 myndum sem eru í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin og er hún framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.
Ingimundur er lögreglustjóri sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.
Öllum íbúum sveitarfélagsins er boðið frítt í bíó en myndin er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.